Ætlar að verða besti boxari í heimi

Kolbeinn Kristinsson ætlar að verða heimsmeistari í hnefaleikum.
Kolbeinn Kristinsson ætlar að verða heimsmeistari í hnefaleikum.

„Þetta er náttúrulega stórhættulegt. Eins og allar aðrar atvinnuíþróttir þannig séð,“ sagði Kolbeinn Kristinsson í samtali við morgunþáttinn Ísland vaknar í gær. Kolbeinn er  fyrsti virki atvinnumaður Íslands í hnefaleikum, er enn ósigraður eftir tólf bardaga og ætlar að verða heimsmeistari í boxi.

Brjóskið í nefinu S-laga

Var Kolbeinn nokkuð nefmæltur í þættinum og sagði það einmitt vera vegna þess að hann hefði fengið högg í andlitið sem hefði valdið því að brjóskið í nefinu væri nú S-laga.

Atvinnuhnefaleikar eru enn sem komið er bannaðir á Íslandi en Kolbeinn heldur í vonina að velgengni hans í íþróttinni muni opna dyr til að leyfa hnefaleika á landinu. Sagði hann Ísland vera eitt af fáum löndum sem enn banna íþróttina en að hans sögn eru atvinnuhnefaleikar einnig bannaðir í Norður-Kóreu og á Kúbu.

„Ég held í vonina að við fáum svona undanþáguleyfi. Þannig gerðu þeir þetta í Kína. Þá þarftu bara að sækja um til að hafa „show“,“ sagði Kolbeinn

Kolbeinn sagði líklegt að um tvö til tvö og hálft ár væru í að hægt verði að fylgjast með honum berjast við allra bestu boxarana. 

Æfir líklega með Tyson Fury

Sagði hann líklegt að hann og Tyson Fury verði æfingafélagar þar sem þeir væru með sama þjálfarann en þeir eru báðir hjá SugarHill Steward.

Sagðist Kolbeinn þó ekki vera vera tilbúinn til að berjast við Gunnar Nelson í tölvuleiknum Fortnite enda yrði sú keppni of vandræðaleg fyrir hann.

Hann væri þó ákveðinn í að verða heimsmeistari í hnefaleikum og sagði líklegt að næsti bardagi verði í lok mars. 

Hlustaðu á viðtal við Kolbein úr morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í spilaranum hér að neðan.mbl.is