„Fallegur boðberi íslenskrar menningar og listar“

Hildur Guðnadóttir hlaut Óskarsverðlaunin í nótt fyrir tónlistina í myndinni …
Hildur Guðnadóttir hlaut Óskarsverðlaunin í nótt fyrir tónlistina í myndinni Joker. AFP

Margrét Hrafnsdóttir, sem búið hefur lengi og starfað í kvikmyndaborginni Hollywood, sagði það stórkostlega stund þegar Hildur Guðnadóttir tók við Óskarsverðlaunum í nótt. „Íslendingar mega vera stoltir af Hildi, sem er fallegur boðberi íslenskrar menningar og listar eins og hún gerist best. Hún hefur stimplað sig rækilega inn í þessu fagi.“ 

Margrét Hrafnsdóttir segir að Hildur sé frumkvöðull í því hvernig …
Margrét Hrafnsdóttir segir að Hildur sé frumkvöðull í því hvernig hún nálgast kvikmyndatónlist. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 sagði Margrét að Hildur hefði átt það fullkomlega skilið að fólk hefði staðið upp og hyllt hana á Óskarsverðlaunahátíðinni.

„Þetta er búið að vera stórkostlegt ár fyrir hana. Hún vann Emmy- og Grammy-verðlaunin fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum Chernobyl, sem eru einir vinsælustu sjónvarpsþættir sem framleiddir voru í fyrra, og tók síðan þátt í kvikmynd sem vann til Golden Globe-, BAFTA- og Óskarsverðlauna. Þetta gerist ekki oft. Hún á þetta fullkomlega skilið.“ 

Uppfinningamaður í tónlist

Margrét segir að Hildur sé frumkvöðull í því hvernig hún nálgast kvikmyndatónlist. „Hún er uppfinningamaður þegar kemur að sjónvarps- og kvikmyndatónlist í dag. Hún fylgir innsæinu og gerir hluti sem aðrir hafa ekki hugsað út í. Það er að skila þessum verðlaunum í hús. Hún er sannarlega verðug valkyrja og rétt kona á réttum stað. Fallegur snillingur sem Ísland á.“mbl.is