Ótrúlegur hópur á bráðamóttökunni

Starfsmenn bráðamóttökunnar voru alsælir með verðlaun fyrir vel unnin störf.
Starfsmenn bráðamóttökunnar voru alsælir með verðlaun fyrir vel unnin störf. Ljósmynd/ísland vaknar

Mikil gleði og hamingja var hjá starfsmönnum bráðamóttökunnar sem fengu á föstudaginn viðurkenningu og þakkir fyrir vel unnin störf undir miklu álagi frá Ísland vaknar, morgunþætti K100. Fengu starfsmenn afhentar öskjur fullar af hamingjuvörum frá Til hamingju. 

Ragna Gústafsdóttir, deildarstjóri á bráðamóttökunni, var ein þeirra sem tóku við verðlaununum og tók undir það að mikið álag væri á starfsfólki og sagði mikið um að vera allan sólarhringinn. Sagði hún þetta þó með bros á vör.

Hlýnar um hjartarætur

„Við erum ótrúlegur hópur sem vinnum hérna. Við erum ótrúlega flott og lausnarmiðuð og bíðum bara eftir því að einhver komi að bjarga þessu ástandi,“ sagði hún. 

„Ég á ekki til orð. Okkur hlýnar um hjartarætur að fólk skuli hugsa svona fallega til okkar. þetta er alveg ótrúlegt,“ sagði Ragna og þakkaði kærlega fyrir hlýhug í garð starfsmanna.

mbl.is