Eru vitundarvíkkandi efni framtíðin?

„Mér skilst á þessum íslensku fjárfestum sem standa í þessu …
„Mér skilst á þessum íslensku fjárfestum sem standa í þessu að það séu svona 2-3 ár í að þetta verði komið sem lyf á markað,“ sagði Héðinn. mbl.is/Eggert / Wikipedia

Héðinn Unnsteinsson varaformaður Geðhjálpar telur miklar líkur vera á framtíð fyrir vitundarvíkkandi efni í geðheilbrigðisþjónustu en rannsóknir hafa sýnt fram á það að efnin geti haft jákvæð áhrif á þunglyndi og kvíða og geti hjálpað fólki að vinna úr afleiðingum áfalla. Til vitundarvíkkandi efna teljast til dæmis svokallaðir „töfrasveppir“ og LSD. Héðinn ræddi málið við Ísland vaknar á föstudagsmorgun. 

Héðinn er einn þeirra sem hefur séð um skipulag á viðburðinum Liggur svarið í náttúrunni en aðalræðumaður viðburðarins verður dr. Robin Carhart-Harris, forstöðumaður rannsóknarseturs um vitundarvíkkandi efni hjá Imperial College í London, sem hefur áralanga reynslu af rannsóknum á efnunum. 

Umræðan komin lengra erlendis

„Við vildum hefja umræðuna af því að bæði þekking og reynsla er mjög lítil á íslandi. Ég sé til dæmis ekki fyrir mér að Háskóli Íslands opnaði tíu manna rannsóknarsetur á hugvíkkandi efnum eins og Imperial College er að gera. Umræðan er komin lengra erlendis,“ sagði hann. 

Vitundarvíkkandi efni eru að sögn Héðins engin nýlunda í mannkynssögunni en fólk hefur notað efnin í tugþúsundir ára. Efnið fékk sérstaka athygli í kjölfar þess að Gordon Wasson, varabankastjóri í Bandaríkjunum, uppgötvaði virkni efnanna í Mexíkó 1955. 

„Í kjölfarið fylgja John lennon og Bob Dylan og fleiri og fleiri,“ sagði Héðinn. 

„Nixon stimplar þetta sem „counter“-kúltúr. Þetta er eitthvað sem við höfum ekki stjórn á og þá er þetta hættulegt. En það er svo upp úr 2000 að menn fara að prófa sig áfram,“ sagði hann og bætti við að þær tilraunir sem nú eru gerðar með efnin séu komnar á þriðja fasa og eru samþykktar af Matvæla-og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, ólíkt fyrri tilraunum á efnunum í Bandaríkjunum. 

2-3 ár í vitundarvíkkandi lyf á markað 

„Mér skilst á þessum íslensku fjárfestum sem standa í þessu að það séu svona 2-3 ár í að þetta verði komið sem lyf á markað,“ sagði Héðinn. 

Sagði Héðinn að ákveðnir aðilar í samfélaginu á Íslandi séu þegar farnir að nota efnin í míkróskömmtum, það er að segja smáum skömmtum af efninu.

„Ég meina, hálfur Silicon Valley er að nota þetta í míkróskömmtum,“ sagði hann. 

Spurður út í það hvernig áhrif það hefur á viðtakanda að taka míkróskammta af vitundarvíkkandi efni sagði Héðinn að efnið hefði áhrif á ákveðinn viðtaka seratóníns í heila.

Hin fullkomna núvitund

„Það er tvennt sem gerist. Annars vegar er eins og vitundin þín, eða í góðri merkingu athyglin þín, festist í líðandi stundu,“ sagði Héðinn. Sagði hann auðvelt að festast í ákveðinni „lúppu“ sem hefði þau áhrif að maður næði ekki að vera til staðar í líðandi stundu eins og getur gerst í kjölfar áfalla.

„Efnið lokar einhvern veginn alveg á þetta og hugurinn er bara til staðar. Þú ert allt í einu farinn að dást að skýjunum og sjá hvað mynstrið í teppinu er rosalega fallegt,“ útskýrði Héðinn og bætti við að þetta væri eins og hin fullkomna núvitund.

„Auk þess sem að þessi áhrif af efninu í míkróskömmtum virðast auka samkennd eða „empathy“. Þú situr á kaffihúsi og horfir á eldri mann ganga niður götuna og skyndilega ertu farinn að velta því fyrir þér hvernig barnæsku þessi maður hefur átt,“ sagði hann.

„Þetta breytir aðeins vitundarástandinu og kemur þér inn í núið.“

Hlustaðu og horfðu á allt viðtalið við Héðin í spil­ar­an­um hér að neðan.

mbl.is