Eins og Stjórnin í augum annarra

Rokkhljómsveitin DIMMA stingur dálítið í stúf við aðra keppendur Söngvakeppninnar.
Rokkhljómsveitin DIMMA stingur dálítið í stúf við aðra keppendur Söngvakeppninnar.

„Það eru allir Eurovision-aðdáendur. Það er fólk sem elskar Eurovision og svo er fólk sem elskar að hata Eurovision. Sameiginlega orðið er elska. Það eru allir að fylgjast með,“ sagði Stefán Jakobsson, söngvari í rokksveitinni DIMMU, í samtali við Síðdegisþáttinn á dögunum spurður út í það hvort hljómsveitin telji sig vera Eurovision-aðdáendur.

DIMMA stígur á svið í undanúrslitum Söngvakeppninnar í kvöld með lagið „Almyrkva“ og má það með sanni segja að hljómsveitin stingi svolítið í stúf við aðra keppendur í söngvakeppninni.

Aðspurður segir Stefán margt hafa orðið til þess að DIMMA ákvað að taka þátt í Söngvakeppninni. 

Vanir að stinga í stúf við aðra

„Þegar spurningin er af hverju eigum við ekki að gera þetta og þú finnur ekkert rökrétt svar þá held ég bara að maður þurfi að gera þetta,“ sagði hann. „Svo er þetta áskorun. Við höfum verið duglegir í mörg ár að spila úti um allt og höldum okkur eiginlega alltaf hérna heima. Við erum ekkert að trana okkur fram erlendis og það er bara kominn tími á þetta. Að taka þetta vígi.“

Stefán játaði að DIMMA væri nokkuð ólík öðrum keppendum í Söngvakeppninni en sagði hljómsveitina vana því að stinga í stúf við aðrar hljómsveitir og tónlistarmenn.

„Við erum vanir því sko. Líka í þessari þungarokkskreðsu þá erum við líka pínu á skjön. Eins og þegar við erum á Eistnaflugi þá erum við bara eins og Stjórnin í augum margra annarra. Við erum einhvern veginn hvorki né eða bæði og,“ sagði Stefán.

Ætla bara að vera DIMMA

„Þetta er rosalega skemmtilegt. Við höfum alltaf ákveðið að fara okkar leiðir með allt saman og haldið okkar stefnu. Erum trúir okkar sannfæringu og höfum enga þörf til þess að breyta okkur.“ 

„Eins og með þessa Eurovision-keppni þá kom til dæmis upp þessi umræða, eins og örugglega á öllum fundum, með búningaval og atriði og svo framvegis. Við förum heim og ræðum þetta og komumst bara að rosalega einfaldri niðurstöðu. Við ætlum bara að vera DIMMA,“ sagði Stefán sem segist hafa spilað öll sín gigg frá upphafi og í öllum veðrum, í svörtum hlýrabol og gallabuxum. 

 Hlustaðu á lagið „Almyrkvi“ í spilaranum hér að neðan.

Hlustaðu á viðtal við Stefán úr Síðdegisþættinum á K100 í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist