Mamma með í bakröddum

Nína Dagbjört Helgadóttir tekur þátt í Söngvakeppninni í ár.
Nína Dagbjört Helgadóttir tekur þátt í Söngvakeppninni í ár.

Nína Dagbjört Helgadóttir flytur lagið Ekkó í Söngvakeppninni í ár og freistar þess að fara með það lag alla leið til Rotterdam. Nína er aðeins 19 ára gömul og tiltölulega óreynd. Hún hefur að vísu gefið út nokkur lög á YouTube, m.a. með Javi Valiño, en það myndband hefur fengið yfir 200.000 áhorf.

Eins og með svo marga aðra sem taka þátt í keppninni í ár var það ekki í plönunum hjá henni að taka þátt í Söngvakeppninni. „Þetta var mjög óvænt. Ég þekkti lagahöfundinn ekki neitt, hann hafði bara samband við mig á Facebook eftir að hafa séð myndböndin mín á Youtube,“ segir hún en þrátt fyrir að þetta sé hennar fyrsta skipti í Söngvakeppninni er reynsla á bak við atriðið.

„Mamma mín tók þátt í keppninni 2001 og 2006. Svo fór hún og söng bakraddir með Selmu árið 1999. Hún verður með mér á sviðinu núna og syngur bakraddir,“ segir Nína en auk þess nýtur hún leiðsagnar og stuðnings reynsluboltans Einars Bárðarsonar en hann semur íslenskan texta lagsins.

Nína stígur á svið laugardagskvöldið 15. febrúar, í seinni undanriðlinum, með mömmu, og vonandi þjóðina alla, sér við hlið.

Hlustaðu og horfðu á viðtal þeirra Loga og Sigga við Nínu og Einar Bárðar í spilaranum hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir