Horfa á bíó í strætó

Kvikmyndasafn Íslands býst við fjölda gesta á bílabíósýningu í Hafnarfirði …
Kvikmyndasafn Íslands býst við fjölda gesta á bílabíósýningu í Hafnarfirði í kvöld. Flickr / mbl.is/Sigurður Bogi

Kvimyndasafn Íslands er eitt þeirra safna sem munu vera með viðburð í tilefni af Safnanótt í kvöld en safnið ásamt Hafnarfjarðarbæ býður upp á gamaldags bílabíó á bílastæðinu fyrir aftan ráðhús Hafnarfjarðar. Strætisvagn verður á svæðinu fyrir þá sem ekki koma á einkabílum en vilja horfa á bíómyndirnar inni í hlýjunni.

Tvær sígildar íslenskar kvikmyndir verða í sýningu í kvöld, Stuttur Frakki (1993) og Sódóma Reykjavík (1992) og verður boðið upp á popp og kók fyrir gesti í anda bíóstemningarinnar.

Sýningareintök úr frumefni

 „Við gerðum eintök af Stuttum Frakka og Sódómu Reykjavík bara út frá því efni sem við áttum hér. Þetta hefur ekki verið til og ekki hægt að sjá þetta lengi,“ segir Þóra Ingólfsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, í samtali við mbl.is. „Við bjuggum til sýningareintök upp úr frumefni af filmu sem er skönnuð í skannanum okkar.“

Hún staðfestir þó að myndefnið verði í miklum gæðum þrátt fyrir gamaldags andrúmsloft.

„Svo verður hljóðinu varpað í útvarpið í  bílunum. Við vonum bara að þetta verði gaman. Við höfum aðallega áhyggjur af því að það verði of mikil örtröð þarna,“ segir Þóra og hlær. 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist