Ekkert mál að strákar fari í kjól

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir var gestur í Síðdegisþættinum í gær og …
Sigrún Ósk Kristjánsdóttir var gestur í Síðdegisþættinum í gær og sagði þar meðal annars frá nýrri þáttaröð um transbörn. mbl.is/Eggert Jóhannesson / AFP

„Það er ekkert langt síðan að maður heyrði að transbörn væru eitthvað sem væri til en svo heyrði maður af þessu í auknum mæli. Þannig að maður var farinn að velta því fyrir sér hvort þetta væri að aukast eða hvort tilfellunum væri að fjölga eða hvernig það væri. Maður veit ekki neitt,“ sagði Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, sjónvarpskona og umsjónarkona nýrrar þáttaraðar um transbörn, í samtali við Síðdegisþáttinn í gær. Verður fyrsti þátturinn sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 á sunnudagskvöld.

Sigrún sagði þættina hafa verið hliðarverkefni hjá henni á þriðja ár og að tökur hefðu staðið yfir síðastliðin tvö ár. 

„Við komumst að því þegar við byrjuðum að vinna þetta, fengum tölfræði frá BUGL, að á fimm árum fóru tilvísanir í transteymið úr tveimur í 26. Þannig að það er eitthvað í gangi,“ sagði Sigrún.

Réttindabarátta samkynhneigðra líklegur áhrifaþáttur

„Svo má náttúrulega bara velta fyrir sér ýmsum hugmyndum um hverjar skýringarnar eru. Við ræddum við lækni sem sagði að að þeirra mati væri þetta líklega þríþætt. Þetta væri réttindabarátta samkynhneigðra. Glæsileg, sem væri að verða til þess að fólk væri tilbúnara til að stíga fram með þessa hluti. Og svo þessi stafræna bylting, samfélagsmiðlar og áhrifavaldar,“ sagði hún. Sagði hún að kenningin væri sú að transfólki væri ekki að fjölga heldur að koma fyrr fram.

Vinirnir eiga ekki í neinum vandræðum

Sigrún sagði gaman væri að fá að fylgjast með börnunum sem kæmu fram í þáttunum.

„Nú eru þetta börn sem voru á aldrinum 7-17 ára þegar við byrjuðum. Þau sögðu eiginlega öll sömu söguna. Félagarnir ættu ekki í neinum vandræðum með þetta. Það væri bara hægt að skipta um nafn á einni nóttu. Strákar gætu farið í kjól og það væri bara ekkert mál. Það væri enginn að kippa sér upp við það. Það er eitthvað sem maður veit að var öðruvísi áður,“ sagði hún. 

Hlustaðu og horfðu á viðtalið við Sigrúnu Ósk í spil­ar­an­um hér að neðan.

mbl.is