Vildi ekki detta í eurovisionsprengjuna

Ísold og Helga munu stíga á svið á undankeppni söngvakeppninnar …
Ísold og Helga munu stíga á svið á undankeppni söngvakeppninnar 2020 á laugardaginn. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum búnar að segja að við ætluðum ekki að fara í glimmer. Við ætluðum að reyna að halda okkur á jörðinni, vera okkar eigin karakterar. Ekki detta of mikið í eurovisionsprengjuna. Það er löngu flogið út um gluggann,“ sagði Ísold Wilberg Antonsdóttir í samtali við Síðdegisþáttinn á dögunum en hún mun keppa ásamt Helgu Ingibjörgu Guðjónsdóttur í glimmerkjól í undanúrslitum söngvakeppninnar 2020 á laugardaginn 8. febrúar og flytja þar lagið „Klukkan tifar“.

„Uppáhalds-eurovisionlögin mín hafa alltaf verið þau sem eru ekki endilega eurovisionleg,“ sagði Ísold. „Það heillar mig alltaf svo mikið. Það er bara af því að flytjendur eru ekki bara að hugsa um: Hey ég er að taka þátt í Eurovision. Þau eru að hugsa um: Ég er tónlistarmaður, ég er listamaður og ég hef eitthvað að segja.“

Oft verið að reyna að etja stelpum saman

Sagðist Ísold fyrst hafa verið nokkuð stressuð yfir því að syngja dúett með annarri stelpu.

„Það fyrsta sem ég hugsaði er að ég fæ miklu meira keppnisskap í mig þegar ég er að keppa við aðrar stelpur. Ég hef fundið fyrir þessu í gegnum tíðina og þetta er nokkuð sem maður hefur fattað á fullorðinsárum hvað það er oft verið að reyna að etja okkur svolítið saman,“ sagði Ísöld. 

„Svo hittumst við og erum báðar mjög sterkir karakterar. Svo einhvern veginn er þetta búið að ganga ógeðslega vel. Við pössum svo vel hvor upp á aðra,“ sagði hún.

Hlustaðu á viðtal við Ísold úr Síðdegisþættinum á K100 í spilaranum hér að neðan.

 

Hlustaðu á lagið „Klukkan tifar“ í spilaranum hér að neðan.

 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist