Sögðu að hún væri alltof ung fyrir Eurovision

Brynju Mary hefur alla tíð dreymt um að vera stórsöngkona.
Brynju Mary hefur alla tíð dreymt um að vera stórsöngkona.

Brynja Mary Sverrisdóttir er yngsti keppandinn í söngvakeppninni í ár, nýorðin 16 ára. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Brynja gert margt á sinni ævi en hún hefur meðal annars búið í sex mismunandi löndum, talar fimm tungumál, hefur samið tónlist í Los Angeles og leikið aðalhlutverk í netflixkvikmynd. Hana hefur alla tíð dreymt um að verða stórsöngkona og hlakkar mikið til að stíga á svið á laugardaginn.

Það munaði þó mjóu að Brynja fengi ekki leyfi til að taka þátt í söngvakeppninni. 16 ára aldurstakmark er í Eurovision en Brynja átti 16 ára afmæli 19. janúar.

„Þau hringdu fyrst og sögðu að ég væri alltof ung og þyrfti að sækja um í fyrsta lagi á næsta ári. En þá hringdi pabbi minn í þau aftur og sagði að ég yrði nú 16 ára þegar ég myndi keppa,“ sagði Brynja í samtali við Síðdegisþáttinn á K100 í gær. 

Brynja sagðist semja alla sína tónlist sjálf en hún samdi „Augun þín“, sem hún mun flytja í söngvakeppninni á laugardaginn, ásamt danska lagahöfundinum Lasse Qvist.

„Síðan ég var 13 ára hef ég verið í stúdíói hverja helgi, þegar ég bjó í Köben. Þá skrifaði ég hverja helgi tvö lög, laugardag og sunnudag. Það tekur mig svona þrjá klukkutíma að skrifa eitt lag,“ sagði Brynja.

Vill ekki vera undirbúin

„Þegar ég kem inn í stúdíó vil ég helst ekki vera undirbúin. Það kemur þá meira frá hjartanu. Það kemur meira svona „hit“,“ segir hún. 

Brynja hefur einnig mikinn áhuga á leiklist og var meðal annars í leiklistarþjálfun í Los Angeles í Bandaríkjunum ásamt yngri systur sinni sem er 14 ára. Í gegnum þá þjálfun voru systurnar valdar til að leika aðalhlutverkið í netflixkvikmyndinni „Bullied“, sem fjallar um einelti og er væntanleg á efnisveitunni á árinu.

„Það passaði rosalega vel að vera í þessari mynd því ég skrifaði þetta lag um einelti því ég var lögð mikið í einelti þegar ég var lítil,“ sagði Brynja. 

Hlustaðu á viðtal við Brynju Mary úr Síðdegisþættinum á K100 í spilaranum hér að neðan.


Hlustaðu á lagið „Augun þín“ í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist