Hakka flugvélar á UT-messu

Fjölmargt verður í boði á UT-messunni sem verður opin almenningi …
Fjölmargt verður í boði á UT-messunni sem verður opin almenningi á laugardaginn. Ekki er ljóst hvort fjögurra metra háa risaeðlan sem mætti á messuna í fyrra verður meðal gesta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill skortur er á tölvumenntuðu fólki hér á landi sem og annars staðar í heiminum en tilgangur Upplýsingamessunnar eða UT-messunnar eins og hún er kölluð, sem haldin verður í Hörpu á morgun og laugardaginn, er einmitt að auka áhuga fólks á tölvugeiranum. Þar býðst gestum meðal annars að fylgjast með ungmennum hakka sig inn í flugvélar og önnur tæki. 

Þetta staðfesti Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri UT-messunnar í samtali við Ísland vaknar í morgun. 

Sagði hún að mikil fjölgun hafi verið í lögfræði og viðskiptafræði og þess konar námi, sérstaklega meðal stelpna, á sama tíma og fyrsta UT-messan var haldin árið 2011.

„Þá var þessi skortur að byrja. Fólk áttar sig ekki á af hverju þessi skortur er en það er bara vegna þess að það er þessi fjórða iðnbylting og þessi tölvutækni er komin í alla geira. Þannig að við erum að reyna að framleiða meira tölvufólk,“ sagði Arnheiður. 

Sagði hún skortinn ekki aðeins vera á fólki sem kunni að forrita heldur vanti fólk á öll svið sem tengist tölvutækni. Það þurfi líka að reka tæknina og skilja hana og vegna aukinnar snjallvæðingar sé sífellt meiri spurn eftir slíkri kunnáttu.

Fylgjast með upprennandi hökkurum

Uppselt er á UT-messuna á morgun en opið er fyrir almenning á laugardaginn. Þá verður ýmislegt í boði fyrir alla en meðal annars verður hægt að fylgjast með netöryggiskeppni ungmenna þar sem ungir upprennandi hakkarar hakka sig inn á ýmis tæki og jafnvel flugvélar.

Í netöryggiskeppni íslenskra ungmenna býðst gestum að fylgjast með upprennandi hökkurum beita aðferðum sem notaðar hafa verið til að brjótast inn í allt frá heimabönkum upp í flugvélar.

Spurð út í það hvað Arnheiður telji að þurfi að gera til að fjölga stelpum í tölvugeiranum sagði hún: „Það er oft bara ímyndin sem við erum að berjast við. Að fólk haldi að þetta sé einhver staðalímynd og bara þessi sem er klár í þessu og stærðfræði geti verið í tölvugeiranum. Ég var sjálf forritari í 20 ár. Þá er maður að leysa verkefni sem henta manni. Það þurfa ekki allir að vera að gera það sama.“ 

 Hlustaðu og horfðu á viðtalið við Arnheiði í spil­ar­an­um hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist