Hvetja fólk til að afþakka óþarfa

Landvernd birtir nú á hverjum degi fram á laugardag nýtt …
Landvernd birtir nú á hverjum degi fram á laugardag nýtt myndband til að hvetja einstaklinga til að minnka sóun með því að fylgja fyrirmælum nýs úrgangspíramída. Ljósmynd/Landvernd

Félagssamtökin Landvernd standa nú fyrir stuttþáttaröðinni „Hvað getum við gert?“ þar sem fólk er hvatt til að afþakka plast og umbúðir og minnka þannig sóun. 

„Þetta er gert til að vekja fólk til vitundar um að það sem við notum, borðum og kaupum skiptir svo miklu máli. Við getum haft áhrif með því hvernig við veljum hluti sem við kaupum,“ segir Margrét Hugadóttir, sérfræðingur hjá Landvernd og verkefnisstjóri stuttþáttaraðarinnar.

Mikilvægt að geta sagt „nei takk“

Fyrsta myndbandið var birt í gær og var þar lögð áhersla á endurhugsun en samtökin stefna á að birta eitt myndband á dag fram á laugardag.

„Við viljum að fólk endurhugsi. Við erum að tala um að endurhugsa og staldra við og spá í hvort maður þurfi einhverja hluti. Að fólk spjalli um þetta og sé að velta þessu fyrir sér,“ segir Margrét. 

Í myndböndunum er bent á ýmsan óþarfa og er fólk …
Í myndböndunum er bent á ýmsan óþarfa og er fólk til dæmis hvatt til að kaupa ekki innflutt vatn. Ljósmynd/Landvernd

Annað myndbandið var birt í gær og var þar lögð áhersla á að afþakka óþarfa. Margrét segir að mikilvægt sé að afþakka og geta sagt „nei takk“ við fólk. Þá séum við að gefa ákveðin skilaboð til samfélagsins.

Bendir hún á að auðvelt sé að afþakka allt sem er einnota svo sem umbúðir í búðum, miða og kvittanir, einnota bolla á kaffihúsum og rör og plastlok í kvikmyndahúsum. 

Vill að endurvinnsla sé neyðarúrræði

„Það eru náttúrulega ekki allir sem geta afþakkað til dæmis rör. Sumir þurfa að nota rör til að drekka með en þeir sem sjá fram á að þeir geti sleppt hlutum eiga að gera það. Í staðinn fyrir að henda þeim strax beint í ruslið,“ segir Margrét.

Margrét segir að þáttaserían byggi á hugmyndinni um úrgangspíramídann sem byggi á gömlum leiðbeiningum sem áttu að hvetja fólk til að endurvinna. Þar var áhersla lögð á að senda allan úrgang í endurvinnslu og urða sem minnst. Segir hún að Landvernd hafi þó endurnýjað úrgangspíramídann og að nú sé búið að strika út valmöguleikann um urðun.

„Síðasti valkosturinn okkar er að setja í endurvinnslu. Það er neyðarúrræði að setja í endurvinnslu því þú átt að vera búinn að koma í veg fyrir að þurfa að gera það áður en það kemur að því. Til þess er öfugi pýramídinn. Þá getur maður losað sig við mest,“ segir Margrét.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Í loftinu núna
Endalaus tónlist