Erfitt að spila fótbolta í Wuhan

Sölvi Geir Ottesen hefur spilað fótbolta víða um heim, meðal …
Sölvi Geir Ottesen hefur spilað fótbolta víða um heim, meðal annars í Wuhan í Kína. Hann er nú aftur kominn á heimalandið og er fyrirliði knattspyrnuliðsins Víkings. Skapti Hallgrímsson

„Það er ekki mikið um vestræna menningu þarna. Þannig að þetta var erfitt,“ sagði Sölvi Geir Ottosen, fyrrverandi leikmaður knattspyrnuliðsins Wuhan Zall í Wuhan í Kína, spurður um upplifun sína á borginni í samtali við Síðdegisþáttinn á K100 í vikunni. Sölvi Geir starfaði í Wuhan áður en kórónufaraldurinn braust út í borginni en hann er nú fyrirliði karlaliðs Víkings í knattspyrnu. Sagði hann að Wuhan hefði verið erfiðasti staðurinn af þeim stöðum sem hann starfaði á í Kína. 

„Til að mynda þurfti ég að keyra í 50 mínútur til að komast á næsta ítalska veitingastað. Þetta var smá „ströggl“,“ sagði hann. 

Ógnvekjandi hugsun að allir séu heima hjá sér hræddir

Sölvi Geir svaraði því neitandi spurður um það hvort hann gæti ímyndað sér ástandið í Wuhan í dag eftir að hafa upplifað lífið þar fyrir tilkomu kórónufaraldursins.

„Nei, sérstaklega ekki í Kína því að göturnar eru allar troðfullar af fólki, alltaf. Á hvaða tíma sem er hvar sem þú ert. Það er mjög ógnvekjandi hugsun að það séu allir bara heima hjá sér hræddir,“ sagði Sölvi.

Sagði hann að lífið sem fótboltamaður í Wuhan væri öðruvísi en annars staðar. Hann hefði farið með það hugarfar til borgarinnar að hann yrði mikið einn sem hefði reynst rétt.

Hreinlætisstandardinn ekki sá sami og í Evrópu

„Þú varst svolítið mikið einn þarna en bara að einbeita þér að fótbolta. Þetta var góður tími til að einbeita sér að fótbolta,“ sagði Sölvi. Sagðist hann ekki vera í miklu sambandi við fólk frá Wuhan enda hefði verið erfitt að kynnast leikmönnum og öðru fólki vegna tungumálaörðugleika. 

Hann hefði þó haft sambandi við túlkinn sem aðstoðaði hann úti í Wuhan eftir að fréttir bárust af kórónuveirunni og ástandinu í borginni. 

„Hann er ekki búinn að svara mér í nokkra daga. Ég geri mér lítið grein fyrir því nákvæmlega hvað er í gangi þarna,“ sagði Sölvi.

Sölvi sagðist þekkja vel til sambærilegra matarmarkaða í Wuhan og sjúkdómurinn er rakinn til.

„Þú rekst á fullt af svona þegar þú ert að „explora“ borgina og fara á hina og þessa staði. Það er það sem maður tekur eftir í Kína sérstaklega að hreinlætisstandardinn þar er ekki sá sami og í Evrópu,“ sagði Sölvi og bætti við að á mörkuðum af þessu tagi væri margt óboðlegt fyrir þá sem ekki þekktu til. 

Erfitt að finna góða matsölustaði

„Oft vissirðu ekkert hvað þú varst að borða, hvers konar kjöt þú varst að borða,“ sagði hann.

Sagðist hann sjálfur ekki hafa gert það að vana sínum að kaupa mat á matarmörkuðum í Wuhan heldur hefði hann reynt að kaupa mat í matvörubúðum þar sem hann þekkti til. Það hefði þó verið erfitt að finna góða matsölustaði í Wuhan. 

„Ég fann einn og einn sem var þokkalegur. Þetta er rosalega stór borg. Eins og ég segi þá var þetta „challenging“ tími að vera þarna út af því hversu lítið vestræn borgin er,“ sagði Sölvi.

Sölvi er að sögn mikill ævintýramaður og hefur spilað atvinnuknattspyrnu í þremur löndum sem telja má nokkuð framandi, í Rússlandi, Taílandi og Kína. 

Segir hann að það hafi verið mikið ævintýri að starfa í þessum löndum.

„Þegar ég lít til baka á minn atvinnumannaferil þá voru þetta virkilega skemmtileg ár að ferðast á milli mismunandi menningarheima og svoleiðis,“ sagði Sölvi. 

„Þetta var ekkert sem ég var búinn að ákveða. Þetta var bara eitthvað sem kom upp á mínum ferli á þeim tíma sem það gerðist. Maður hafði ákveðna drauma um að ná visst langt í fótbolta og síðan þarftu bara að taka ákvörðun þegar þú ert kominn á þann aldur að þú kannski sérð að það er ekkert að fara að gerast. Í mínu tilviki fór ég bara á vit ævintýranna frekar,“ sagði hann.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist