„Svefnleysi stóreykur líkur á alvarlegum sjúkdómum“

mbl.is/Thinkstockphotos

Samkvæmt nýjustu könnunum segist helmingur Íslendinga ekki sofa nóg. 34% sofa undir sex klukkustundum en svo stuttur svefn er sagður auka líkur á margvíslegum andlegum og líkamlegum sjúkdómum, draga úr framleiðni og auka slysahættu.

„Mikilvægi svefns hefur klárlega verið vanmetið,“ segir dr. Erla Björnsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns, í viðtali við Ísland vaknar á K100.

Erla er klínískur sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum og sérfræðingur í svefnrannsóknum. Hún stendur fyrir ráðstefnu um svefn sem fram fer í Hörpu í október. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er dr. Matthew Walker sem slegið hefur í gegn um heim allan með bók sinni Why we sleep. Walker er prófessor við Harvard-háskóla og sérfræðingur í svefni, sálfræði og taugalífeðlisfræði.

dr. Matthew Walker, höfundur bókarinnar Why we sleep.
dr. Matthew Walker, höfundur bókarinnar Why we sleep.

Þrjár grunnstoðir heilsu

„Ef við hugsum um þrjár grunnstoðir heilsu sem eru mataræði, hreyfing og svefn þá hefur áherslan verið mest á mataræði og hreyfingu,“ segir Erla. „Við höfum gleymt svefninum. Ef við tölum um eigin svefn þá erum við oft að stæra okkur af því hvað við sofum lítið af því það sýnir hvað við erum dugleg. Þessu þarf að breyta.“

dr. Erla Björnsdóttir er klínískur sálfræðingur og doktor í líf- …
dr. Erla Björnsdóttir er klínískur sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum og sérfræðingur í svefnrannsóknum.

Fólk er ólíkt og það er ákveðinn munur á svefnþörf okkar, að sögn Erlu. „Fullorðnir þurfa oftast 7-9 tíma svefn. Það eru mjög fáir sem eru utan þess ramma. Rannsóknir hafa sýnt að það er ákveðin genasamsetning sem virðist gera fólki kleift að sofa í 6 tíma eða minna án þess að það hafi skaðleg áhrif en það eru undir 3% af mannkyni sem hafa þessa genasamsetningu. Það eru mjög fáir sem komast upp með svona lítinn svefn án þess að þurfa að borga skattinn af því.“

Kemur í veg fyrir sjúkdóma

Fjöldi rannsókna staðfestir að ef sofið er of lítið, eða of mikið, þá geti það leitt til alvarlegra sjúkdóma, að sögn Erlu. „Ef við erum að sofa jafn lítið og þriðjungur þjóðarinnar segist gera þá erum við að stórauka líkur á alvarlegum sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini. Við erum hreinlega að hafa áhrif á lífslíkur okkar. Það er svo margt að gerast í svefninum. Við erum að styrkja varnarkerfi líkamans, endurnýja frumur og losa út eiturefni. Það er svo margt í gangi sem við verðum ekki vör við. Mín upplifun er sú að við séum meðvitaðri um mikilvægi svefns. Það er meira í umræðunni en það vantar svolítið upp á að gjörðir fylgi með.“

Það er líka hægt að sofa of mikið og það er heldur ekki hollt, að sögn Erlu. „Eins og svo margt annað í lífinu þá er það hinn gullni meðalvegur sem gildir. Ef þú sefur meira en 10 tíma á hverjum degi þá ertu að auka líkur á ýmsum sjúkdómum og hafa slæm áhrif á ýmis lífsgæði og líðan.“

Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna um svefn í Hörpu má nálgast hér. 

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá og heyra viðtalið við dr. Erlu Björnsdóttur í heild sinni.

mbl.is