Ruza er rosaleg

Eva ásamt tökuliði Mannlífsþáttanna á toppi Esjunnar.
Eva ásamt tökuliði Mannlífsþáttanna á toppi Esjunnar.

Eva Ruza Miljevic, sem slegið hefur í gegn á samfélagsmiðlum og síðan sem skemmtikraftur, stimplaði sig af krafti inn á K100 í vikunni.

Eva leysti Loga Bergmann af í Síðdegisþættinum og það er ljóst að útvarpið er vettvangur sem hún á heima á. Þetta verður ekki í síðasta skipti sem hlustendur K100 fá að heyra í henni.

Siggi Gunnars og Eva Ruza í stúdíói K100 í vikunni.
Siggi Gunnars og Eva Ruza í stúdíói K100 í vikunni.

Það hefur verið nóg um að vera hjá Evu upp á síðkastið. Hún er vinsæll veislustjóri en hennar aðalstarf er að reka við hlið móður sinnar fjölskyldufyrirtækið Ísblóm við Háaleitisbraut, rótgróin blómabúð sem opin er alla daga og því nóg að gera þar. Hún var einnig að ljúka við upptökur á nýjum sjónvarpsþáttum sem heita Mannlíf og eru unnir í samstarfi við samnefnt helgarblað og tímaritið Vikuna en þættirnir fara í loftið á Sjónvarpi Símans með hækkandi sól. Það hafði lengi verið draumur hjá Evu að starfa í sjónvarpi og hún var í skýjunum með útkomuna þegar tökum lauk á dögunum. Þættirnir eru framleiddir af Sagafilm en það var reynsluboltinn Þór Freysson sem hafði yfirumsjón með ferlinu.

Þannig að þessi hæfileikaríka kona er ekki bara flott á samfélagsmiðlum og uppi á sviði, heldur blómstrar hún í fjölmiðlunum líka.

Hlustaðu á Evu segja frá nýjasta trendinu á netinu, Valentínusartréi, í Síðdegisþættinum í vikunni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is