Hlýnun jarðar í spennusagnastíl

Lena Endre leikur aðalhlutverk í þáttunum
Lena Endre leikur aðalhlutverk í þáttunum Skjáskot

RÚV hefur sýningar á nýrri sænsk/íslenskri spennuþáttaröð í febrúar. Þáttaröðin heitir Thin Ice en þættirnir eru framleiddir af Sagafilm og einu stærsta framleiðslufyrirtæki Svíþjóðar, Yellow Bird. Sögusviðið er Grænland.

Kristín Þórhalla Þórisdóttir sem alltaf er kölluð Kidda Rokk, framleiðandi hjá Sagafilm, ræddi um þættina við Síðdegisþáttinn á K100. „Við erum búin að vera að þróa þetta í mjög langan tíma. Í þessum þáttum erum við að tala um umhverfismál og hlýnun jarðar og sögusviðið er Grænland,“ segir Kidda sem talar um að þetta sé mikil spennusaga þar sem pólitísk valdaöfl takast á. Það er þekkt sænsk leikkona sem mun fara með aðalhlutverkið í þáttunum en hún átti hugmynda að þeim ásamt sænska framleiðandanum Sören Stærmöse.

Þættirnir eiga að gerast á Grænlandi en voru að mestu teknir upp hér á Íslandi. „Það er erfitt að fara til Grænlands og taka upp þar,“ segir Kidda og segir að þau hafi búið til grænlenskan veruleika hér á landi. Handrit þáttanna er skrifað af íslenskum höfundum, þeim Birki Blæ Ingólfssyni, Jónasi Margeiri Ingólfssyni og Jóhanni Ævari Grímssyni. Auk þess er einn af leikstjórum þáttanna, Guðjón Jónsson, íslenskur.

Þættirnir hefja göngu sína, eins og áður segir, á RÚV í febrúar.

Þú getur hlustað á skemmtilegt viðtal við Kiddu Rokk í spilaranum hér að neðan.

mbl.is