Heyrðu lag Ozzy og Elton John

Ozzy Osbourne og Elton John.
Ozzy Osbourne og Elton John. AFP

Rokkarinn Ozzy Osbourne hefur gefið út glænýtt lag sem hann flytur með engum öðrum en Elton John. Lagið heitir Ordinary Man. Í texta þess kemur fram ósk höfundar um að vilja ekki deyja sem „venjulegur maður þegar litir dofna og árin færast yfir“.

Nokkrum dögum eftir að lagið kom út tilkynnti Ozzy, í hjartnæmu sjónvarpsviðtali með eiginkonu sinni Sharon Osbourne, að hann hefði verið að berjast við taugahrörnunarsjúkdóminn sem kenndur er við Parkinson um nokkra hríð.

Lagið Ordinary Man öðlaðist þar með dýpri merkingu þar sem Ozzy heldur áfram að berjast fyrir lífsgæðum sínum og styrk.

„Þetta small allt saman,“ sagði Ozzy í viðtalinu. „Slash, gamall vinur minn, tekur gítarsóló í laginu en þegar ég var að semja það þá minnti það mig á gamalt lag með Elton John. Ég átti ekki von á að hann myndi vilja syngja það með mér en hann féllst ekki bara á það heldur einnig að leika á píanó í laginu. Ég er afar þakklátur fyrir fyrir þetta,“ sagði rokkarinn.

Haft er eftir Sharon að hún megni ekki að hlusta á lagið í heild sinni. Hún hefur nokkrum sinnum reynt en alltaf þurft að hætta því lagið framkalli óstöðvandi tár. Hún sé þó ánægð fyrir hönd Ozzy að laginu hafi verið vel tekið.

Um það bil 10 milljónir manna eru greindir með parkinson-sjúkdóminn um allan heim, að því er fram kemur á parkinson.is. Flestir sem greinast með sjúkdóminn eru yfir 60 ára en einn af hverjum tíu eru undir 50 ára aldri við greiningu. Talsvert fleiri karlar en konur frá sjúkdóminn. 

Tegundin sem Ozzy er greindur með nefnist PRKN 2. „Það eru til svo margar tegundir af Parkinson,“ segir Sharon Osbourne. „Þetta er ekki dauðadómur. Það eru góðir dagar en síðan koma slæmir inn á milli.“

mbl.is