Vilja leiðrétta misskilning um „swing“

Unsplash/Marvin Meyer

Íslenskt par, sem stundar „swing“-lífsstílinn svokallaða en vill ekki koma fram undir nafni, sendi bréf til þáttastjórnenda morgunþáttarins Ísland vaknar á K100 sem lesið var upp í  morgun.

Parið segir það færast í vöxt að Íslendingar fari til útlanda gagngert til að heimsækja „swing-klúbba“. Ýmsar getgátur eru um hvernig þessir klúbbar eru og parið vill með bréfi sínu útrýma misskilningi um hvað fer þar fram.

Bréfið frá parinu er í heild sinni hér fyrir neðan.

Swing lífsstíllinn hefur verið að stækka á Íslandi sem og reyndar út um allan heim. Þessi lífsstíll hefur reyndar verið til mjög lengi en með tilkomu netsins og almennt opnari umræðum um kynlíf þá hefur það opnað dyrnar fyrir marga að prófa nýja hluti í sínu kynlífi.

Fyrir nokkrum vikum þá sátum við hjónin á fínum veitingastað í borginni. Síðar um kvöldið þá áttum við stefnumót með aðila úr lífsstílnum og hlökkuðum til. Okkur finnst gott að eiga notalega stund saman áður en við förum að hitta aðra og því kjörið að fara á þennan veitingastað. Við spjölluðum um hvað væri í vændum, það er einmitt hluti af forleiknum og spennunni að ímynda sér hvað myndi gerast næst. Svo heyrum við fyrir tilviljun á þarnæsta borði að það er fólk þar að tala um swingklúbba. Við gripum andann á lofti til að ná að heyra hvað þau voru að tala um (veit það er dónalegt að hlera aðra en við vorum bara of forvitin). Kona í hópnum sagði öðrum frá því að nú séu Íslendingar að fara erlendis til þess að fara á swingklúbba. Fólkið við borðið spyr þá hvernig svoleiðis klúbbar virka. Þar koma þá upp nokkrar mýtur um svona klúbba. Áður en langt um leið þá var hækkað í tónlistinni þannig að við gátum ekki hlerað mikið lengur en hérna eru nokkrar staðreyndir um swingklúbba sem fólkið við borðið og aðrir áhugasamir hefðu kannski gaman af að vita.

Það er klúbbur (eða klúbbar) í flestum stórborgum í Evrópu (en enginn á Íslandi). Klúbbar eru mis „exclusive“ þ.e.a.s. sumir eru þannig að þú kemst bara inn við dyrnar en sumir krefjast umsóknar með bakgrunnsupplýsingum t.d. myndum og staðfestingarsímtal svo dæmi séu tekin.

Margir klúbbar eru með þemakvöld þar sem er ákveðinn klæðnaður eða búningar sem fólk er hvatt til að koma í. Klúbbarnir eru með reglur. Ef þú fylgir þeim ekki þá ertu umsvifalaust sendur út. Mjög mikilvægt að kynna sér reglur klúbbsins áður en þið farið þangað til að verða ekki fyrir vonbrigðum eða verða sjálfum sér til skammar.

Margir klúbbar leyfa staka karla eingöngu á ákveðnum kvöldum. Algengt er t.d. að um helgar séu bara parakvöld og þá veit fólk að það eru bara önnur pör. Einnig er algengt að leyfa bara ákveðinn fjölda stakra karla eða sem hlutfall af heildargestum kvöldsins. Stakar konur fá yfirleitt ódýrara inn en pör eða stakir karlar.

Það er stundum erfitt að finna klúbbana. Stundum fá meðlimir upplýsingar um hvernig á að finna hann daginn fyrir, hann gæti t.a.m. verið „falinn“ á fjölfarni götu og þú þarft að vita hvaða takka á að ýta á til að kveikja á kallkerfinu, eða hann gæti verið lengst uppí sveit. En það sést aldrei inn að utan, svartir gluggar, öryggishlið og öflug dyravarsla er algeng á klúbbunum.

Swingklúbbar líta oft út eins og venjulegir dansklúbbar þegar þú ert kominn inn; dansgólf, bar, rólegt setusvæði, DJ, diskókúla og ljósabúnaður en svo eru leikherbergin á bakvið. Það er algengt að vera með mismunandi rúm og herbergi til að þjóna fjölbreyttum fantasíum fólks.

Ef þið eruð ný látið starfsfólkið vita og þið fáið kynningu á reglum og herbergjum klúbbsins.

Það eru læstir skápar á klúbbunum þar sem hægt er að geyma verðmæti og símar eru STRANGLEGA BANNAÐIR á öllum swingklúbbum.

Klúbbarnir eru með samþykkisreglur. Fáðu samþykki fyrir líkamlegri snertingu fyrirfram. Snerting er ekki það sama og koss og koss er svo ekki það sama og munnmök. Þögn er EKKI það sama og samþykki, fáðu JÁ, annars er það NEI. Þetta er líka almennt þannig í lífsstílnum og ætti auðvitað að vera alls staðar þegar kemur að samþykki og kynlífi milli tveggja einstaklinga.

Það eru öryggisverðir og almennilegt starfsfólk víða inní klúbbunum. Þau eru þar til að hjálpa þér ef þig vantar eitthvað og eru öllu vön. Slæm hegðun er ekki algeng í swingklúbbum enda gæti hún orðið til þess að meðlimir verði reknir úr klúbbnum fyrir fullt og allt.

Ekki allir í klúbbnum vilja stunda kynlíf með öðrum. Sumir koma til að láta horfa á sig eða horfa á aðra, eða bara vera í kringum aðra sem eru að stunda kynlíf.

Hvatt er til öruggs kynlífs og smokkar eru oftast ókeypis í klúbbunum.

Það getur verið fólk á öllum aldri þarna. Stundum eru ákveðið þemu, aldurstakmörk osfv en almennt þá er fólkið þarna á öllum aldri og í öllum stærðum og gerðum. Sumir ímynda sér kannski að á klúbbum séu bara fólk í geggjuðu formi eða kannski bara gamalt skrýtið fólk. Heilt yfir þá er fólk bara venjulegt, eðlilegur þverskurður af þjóðfélaginu. Fólki á þrítugs- og sextugsaldri finnst kynlíf oft alveg jafn gott.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist