Margrét segir „nei“ við mýkingarefni í klósettið

Skólastjóri Hússtjórnarskólans varar við notkun mýkingarefnis í klósettkassann.
Skólastjóri Hússtjórnarskólans varar við notkun mýkingarefnis í klósettkassann.

Matarvefur mbl.is sagði frá nýjasta húsráðinu í gær; að setja mýkingarefni í klósettkassann til þess að fá góða lykt. Hefur þetta húsráð vakið mikil viðbrögð hjá fólki og hafa m.a. píparar varað við því að nota mýkingarefni í þessum tilgangi. 

Síðdegisþátturinn á K100 heyrði í hinni einu og sönnu Margréti Sigfúsdóttur, skólastjóra Hússtjórnarskólans, til þess að fá úr því skorið hvort þetta sé yfir höfuð sniðugt.

„Nei, ég er bara alveg sammála pípurunum. Þetta myndar sleipa slikju inni í kassanum. Það er nefnilega til svona sem hægt er að hafa í klósettunum sem gefur góða lykt þegar það er sturtað niður. Er ekki miklu nær að nota eitthvað sem er hannað fyrir klósettið til þess að gefa góða lykt?“ sagði Margrét þegar hún var spurð út í þetta nýja húsráð. Sjálf segist hún ekki nota neinn lyktareyði, hún einfaldlega bara opni gluggann. „En það er auðvitað ekki hægt alls staðar,“ bætti hún við.

Það er því ljóst, sé tekið mark á varnaðarorðum pípara og Margrétar, að allar æfingar með mýkingarefni í klósett eru varasamar. 

Margrét er reyndar almennt ekkert hrifin af því að fólk noti mýkingarefni þegar það þvær þvott, það myndi slikju í þvottavélum og geti stuðlað að því að þar myndist sveppir. Ef fólk ætli að nota svoleiðis eigi einungis að nota lítinn dropa. Eins segir hún það algengt að fólk noti allt of mikið af þvottaefni.

Hlustaðu á áhugavert viðtal úr Síðdegisþættinum á K100 við Margréti í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is