Lagalisti gæludýra á Spotify

Samsett/Unsplash

Það er ekki nóg með að tónlistarveitan Spotify geti búið til lagalista fyrir allan tilfinningaskalann eða aðstæður. Nú er einnig hægt að búa til lagalista fyrir gæludýr heimilisins. 

Tónlistarveitan hefur kynnt til sögunnar lagalistann Pets sem gæludýr heimilisins getur notið að hlusta á og tralla með. Spotify segist hafa „...ráðfært sig við sérfræðinga í gæludýraiðnaðinum“ til að skapa þessa nýjung sem er líkleg til að slá í gegn hjá notendum.

Lagalisti gæludýrsins byggir á þeim lögum sem notandinn hefur þegar spilað úr Spotify en hrynjandi þeirra er aðlagaður að fyrirframákveðnum einkennum dýrsins sem notandinn skilgreinir. Ef þú hlustar mikið á diskó friskó og átt dýr sem er forvitið og alltaf í stuði þá stingur Spotify upp á svoleiðis lista.

Rokkhundar

Rokkhundar eru raunverulega til og með hjálp þessarar nýjustu viðbótar Spotify má auðveldlega finna lög sem þeir geta notið í botn. Rocky, hundur Ozzy Osbourne, er þegar kominn með lagalista sem hann dillar sér við.

Þetta er þó ekki bara fyrir hunda því kettir, fuglar og hamstrar geta örugglega fundið eitthvað við sitt hæfi á Spotify.

Samkvæmt rannsókn sem háskólinn í Glasgow birti árið 2016, og BBC vitnaði til, þá eru hundar með sinn eigin tónlistarsmekk. Þeim líkar best við reggí- og rólega rokktónlist. Háskólinn í Lincoln komst að því að páfagaukar hafa mest gaman af popp- og þjóðlagatónlist en gjörsamlega þola ekki danstónlist.

Kettir skera sig úr og eru sagðir ekki bregðast við á jákvæðan hátt við tónlist mannfólksins. Sama hvaða tónlistartegund það er, kettir eru bara skrítnir hvað þetta varðar.

Hér er tengillinn á síðu Spotify sem setur upp lagalista fyrir gæludýr þitt.

Grein NME

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist