Shania Twain loksins hrifin af Brad Pitt?

Brad Pitt og Shania Twain.
Brad Pitt og Shania Twain. Mynd/Samsett/AFP

Kanadíska söngkonan Shania Twain var ekkert sérstaklega hrifin af Brad Pitt í laginu That Don’t Impress Me Much sem sló í gegn árið 1998. Í laginu lýsir hún þremur vonbiðlum sem gengu á eftir henni með grasið í skónum. Þeir voru allir frekar uppteknir af sjálfum sér.

Sá fyrsti var eldflaugavísindamaður og þóttist vita allt, næsti var upptekinn af eigin útliti og hélt að hann væri Brad Pitt og sá þriðji sá ekkert annað en bílinn sinn. Shania var ekki hrifin af þessu og samdi lag um þessa gaura. „Gáfur, útlit og bíll halda mér ekki heitri um miðja nótt,“ söng hún og milljónir hlustenda tóku undir.

En nú er öldin önnur og engu líkara en að Brad Pitt hafi eytt árunum í að ganga í augun á Shania Twain, að því er spaugarar á samfélagsmiðlum hafa haldið fram.

Leikarinn fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni Ad Astra, sem er núna í bíó. Þar leikur hann geimfara sem leitar að pabba sínum. Í auglýsingu myndarinnar er Brad sýndur aka geimbíl á fjarlægri plánetu. Þá varð einum Twitter notanda að orði: „Ég vissi ekki að Brad Pitt léki eldflaugavísindamann sem ætti bíl? Þetta er það þrennt sem Shania Twain er ekkert hrifin af.“

Shania sjálf brást við þessu með því að svara með þremur brosköllum sem grenjuðu úr hlátri.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist