„Hef ekki kallað neitt heimili í mörg ár“

Jökull með gítarinn á Hawaii.
Jökull með gítarinn á Hawaii. Mynd af Facebook-síðu Kaleo

Gamla húsbandið á Hressó hefur aldeilis slegið í gegn en hljómsveitin Kaleo, með söngvarann Jökul Júlíusson í forsvari, hefur lagt heiminn að fótum sér undanfarin ár. Jökull var í skemmtilegu viðtali við þá Loga og Sigga í Síðdegisþættinum á K100 á föstudaginn.

Hljómsveitin leggur nú lokahönd á útgáfu nýrrar plötu sem væntanleg er með vorinu en tvö ný lög litu dagsins ljós í vikunni. „Þriggja ára heimstúr hefst hjá okkur strax í sumar eftir útgáfu plötunnar,“ segir Jökull. „Líf mitt er stundum þannig að ég veit ekki alveg nákvæmlega hvar ég verð í næstu viku en á tónleikaferðalagi get ég flett því upp í dagskránni.“

Tæp sex ár komin í Bandaríkjunum

Jökull er búinn að dvelja í tæp 6 ár erlendis, lengst af í Nashville. „Ég flakka aðeins á milli L.A. og New York. Nashville er æðisleg borg og skemmtilegt samfélag. Í L.A. þarf algjörlega að skipuleggja daginn eftir umferðinni en í Nashville er nánast hægt að labba á milli hljóðvera. Borgin er eins konar Mekka tónlistariðnaðarins, alla vega upptökuiðnaðarins. Þar er auðvelt að starfa og koma hlutunum í verk.“ Spurður hvort hann kalli Nashville heimili sitt segir Jökull að hann hafi eiginlega ekki átt neitt heimili undanfarin ár. „Ég hef ekki kallað neitt heimili í mörg ár, Ísland er alltaf heim. En fyrsta skiptið sem ég get sofið í sama rúmi í nokkrar nætur samfleytt er í Nashville.“

„Mig lang­ar alltaf að skapa og vera í stúd­íó­inu og …
„Mig lang­ar alltaf að skapa og vera í stúd­íó­inu og finna nýj­an hljóðheim.“ Mynd af Facebook-síðu Kaleo

Ný tónlist eftir langt hlé

Þann 15. janúar sl. komu út tvö ný lög með Kaleo, fyrsta nýja efnið síðan 2016. Ástæðan fyrir þessari löngu bið eftir nýju efni var einfaldlega langt og strangt tónleikaferðalag sem fylgdi útgáfu plötunnar A/B árið 2016. „Ég á helling af efni og langar alltaf að skapa og vera í stúdíóinu og finna nýjan hljóðheim. En það er ekkert annað í boði en að fylgja þessu eftir. Fulllangt að mínu mati, ég hefði verið meira en til í hefja upptökur fyrr. Ég reyndi það á ferðalaginu að vera með ferðastúdíó, syngja í rútunni og klippa. Svo var ég að hoppa inn í stúdíó úti um allan heim í S-Evrópu og meðan ég var hér á Íslandi. Það gerði mér ekkert rosalega gott því þær stundir voru einu fríin og ég keyrði mig alveg út.“

Hlustaðu á skemmtilegt viðtal sem Logi og Siggi tóku við Jökul í Síðdegisþættinum á K100 í spilaranum hér að neðan.

Nýja efnið með Kaleo er komið á Spotify. Lögin „I Want More“ og „Break My Baby“

mbl.is