Vegan-útgáfur af réttunum sem við elskum öll

Systurnar Júlía Sif og Helga María halda úti matarblogginu veganistur.is
Systurnar Júlía Sif og Helga María halda úti matarblogginu veganistur.is

Veganúar hefur verið haldinn hátíðlegur í janúar sl. ár þar sem kastljósinu er beint að vegan-mataræði og -lífsstíl. Sumir stíga sín fyrstu skref í þessum lífsstíl í þessum mánuði og vex það mörgum í augum að prófa vegan-mat því menn telja svo flókið að búa hann til. Þar koma systurnar Helga María og Júlía Sif til skjalanna en þær hafa starfrækt matarbloggið veganistur.is í nokkur ár.

„Síðan okkar er stærsta vegan-matarblogg landsins og við leggjum okkur mikið fram við að sýna fólki hversu auðvelt og skemmtilegt það er að elda vegan-mat,“ sögðu þær Helga og Júlía í samtali við þá Loga og Sigga í síðdegisþætti K100 á dögunum. 

Fyrir nokkrum mánuðum ákváðu þær að taka skrefið lengra og gefa út matreiðslubók þar sem einungis er að finna vegan-uppskriftir. „Bókin átti upprunalega að koma út núna í janúar en við fengum margar óskir um að hún kæmi út fyrir jól svo að við rétt náðum að gefa hana út fyrir jólin.“

Þær leggja áherslu á að bókin, líkt og matarbloggið, sé engin heilsubók heldur innihaldi hún alls kyns uppskriftir sem henti öllum. Enda vakti það líka athygli þáttastjórnanda að í bókinni var að finna uppskriftir að lagtertum og heitum brauðréttum sem hljómuðu mjög girnilegar. „Við elskum að útbúa vegan-útgáfur af réttunum sem við elskum öll og í bókinni má finna uppskriftir að venjulegum heimilismat, bakstri, léttari réttum og gómsætum hátíðarréttum.“

Þú getur horft og hlustað á skemmtilegt viðtal við Veganisturnar í spilaranum hér á neðan þar  sem þær deila með hlustendum hvernig þær gera vegan-brauðrétt og hvað getur komið í stað eggjahvítunnar í t.d. marenge. 

mbl.is