„Lag Auðar og Leisure mjög svipuð“

Auður í Listasafni Íslands á dögunum. Lag hans Enginn eins …
Auður í Listasafni Íslands á dögunum. Lag hans Enginn eins og þú þykir líkjast öðru lagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samfélagsmiðlar hafa logað að undanförnu frá því morgunþátturinn Ísland vaknar á K100 fjallaði á fimmtudag í síðustu viku um líkindi laganna Enginn eins og þú með tónlistarmanninum sem kallar sig Auður og laginu On My Mind með hljómsveitinni Leisure frá Nýja-Sjálandi.

Jón Axel Ólafsson, einn þáttastjórnenda Ísland vaknar, var staddur í verslun á Ítalíu þegar hann heyrði tóna úr lagi sem minntu hann strax á vinsæla lagið með Auði. 

Hljómsveitin Leisure sendi frá sér lagið On My Mind í apríl í fyrra. Þessi upptaka frá sveitinni í hljóðveri var sett á vefinn í maí í fyrra.

Lag Auðar, Enginn eins og þú, kom út í júní í fyrra. 

Arnar Eggert Thoroddsson poppfræðingur segir í samtali við K100 að bæði lögin séu í „sálargrúvi“ þar sem versið, uppbygging og viðlagið er með sömu melódíu og áherslum. Þau séu mjög svipuð en það eigi reyndar við um mörg lög, enda bjóði dægurtónlistarformið upp á takmarkað vinnslurými.

„Ég hef mjög ákveðnar skoðanir á svona málum. Það eru fullt af lögum mjög svipuð án þess að höfundar viti endilega af hvor öðrum. Mér fannst t.d. málið með Blurred lines hér um árið alveg fáránlegt og eins með lagið Söknuð,“ segir Arnar Eggert.

Ekki hefur nást í tónlistarmanninn Auðunn Lúthersson, sem kallar sig Auður, vegna málsins.

Uppfært kl 18:06

Arnar Ingi Ingason sem kallar sig Young Nazareth hefur tjáð sig um málið á Twitter. Hann segist hafa samið lagið með Auðunni í febrúar á síðasta ári. 

mbl.is