Queen á Live Aid fyrir Ástralíu

Brian May segir að Queen hafi verið beðin um að …
Brian May segir að Queen hafi verið beðin um að koma fram á góðgerðartónleikum til að styðja við fórnarlömb eldanna í Ástralíu. AFP

Breski gítarleikarinn Brian May úr hljómsveitinni Queen segir, í viðtali við Sky, að sveitin hafi verið beðin um að koma fram á góðgerðartónleikum til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda vegna kjarreldanna í Ástralíu. Tónleikunum á að svipa til Live Aid, að sögn May, þar sem fjöldi listamanna mun leggja lóð á vogarskálar. Markmiðið er að styðja við björgunar- og slökkvistarf og hlúa að fórnarlömbum eldanna.  

Stjörnur eins og Kylie Minogue, Chris Hemsworth, Margot Robbie, Elton John, Pink og Nicole Kidman hafa að undanförnu látið háar fjárhæðir renna til hjálparstarfs.

Fyrr í þessari viku tilkynntu tónleikahaldararnir TEG Live og TEG Dainty um góðgerðartónleika undir heitinu Fire Fight Australia. Tónleikarnir eiga að fara fram sunnudaginn 16. febrúar.

Ekkert er látið uppi um hvaða listamenn munu koma fram en mjög líklegt má telja að Queen og söngvarinn Adam Lambert stígi á svið. 

Dýravinurinn May

Hin síðari ár hefur Brian May látið velferð dýra sig varða. Talið er að milljarður dýra hafi farist í eldunum í Ástralíu að undanförnu. Stór hluti þess­ara dýra eru poka­dýr og eru mörg dæmi um að poka­dýr hafi drep­ist frá ung­um af­kvæm­um sín­um.

„Auðvitað er mér umhugað um dýrin,“ er haft eftir May. „Það er mjög sorglegt að 24 manns hafi látið lífið en talan yfir dýrin sem hafa farist í eldunum er nánast óhugsandi. Það er að verða róttæk breyting á villtu dýralífi í Ástralíu. Við erum að horfa upp á útrýmingu sem við getum ekkert gert við nú, en við hefðum getað brugðist við fyrr.“

mbl.is