Minningartónleikar Avicii

Avicii lést árið 2018.
Avicii lést árið 2018. AFP

Minningartónleikar um sænska tónlistarmanninn Tim Bergling, sem kallaði sig listamannsnafninu Avicii, fóru fram í Stokkhólmi í byrjun desember. Um 50 þúsund áhorfendur troðfylltu tónleikahöllina Friends Arena en markmiðið með tónleikunum var ekki bara að minnast Avicii, sem lést árið 2018, heldur einnig að hvetja til vitundarvakningar um geðsjúkdóma.

Tónleikarnir voru í beinni útsendingu á síðum Avicii á YouTube, Facebook og Instagram. Listamenn, sem störfuðu á árum áður með honum, komu fram á tónleikunum. Þar má nefna Aloe Blacc, Rita Ora og Adam Lambert.

Klas Bergling, faðir tónlistarmannsins sagðist vonast til að minningartónleikarnir um son hans yrðu til þess að auka vitund um geðsjúkdóma. „Í Svíþjóð falla 1.500 manns fyrir eigin hendi á hverju ári. Þessi tala er um milljón manns um heim allan,“ sagði hann í tilkynningu. „Þetta er ömurleg staðreynd sem hefur mikil áhrif á samfélög og fjölskyldur sem búa við langtímaáhrif sorgar. Þetta er heimsfaraldur og er næstalgengasti orsakavaldur andláts ungs fólks á aldrinum 15-29 ára. Við viljum að málefnið komist á dagskrá með þessum tónleikum og einnig vekja athygli á fordómum sem enn eru ríkjandi gagnvart andlegum veikindum og sjálfsvígum. Ný stefna og úrræði eru brýn til að greina áhættuþætti svo koma megi í veg fyrir sjálfsvíg, einkum meðal ungs fólks.“


 

mbl.is