Megrun: „Engin ein lausn fyrir alla“

Mynd/Unsplash/i yunmai.

„Líkami okkar þarf næringu og hitaeiningar til að vakna, virka og hugsa. Kerfið þarf orku svo hjarta-, æða- og ristilkerfi virki. Ef við ætlum að svelta þetta þá mun eitthvað klikka. Við verðum orkulaus og vítamíninnihald fer niður. Við gætum þá farið í verra ástand þótt vigtin fari niður.“

Þetta segir Elísabet Reynisdóttir næringafræðingur í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100. Nú er tími áramótaheitanna þar sem margir stefna að því að hreyfa sig meira og borða minna. Elísabet minnir á að af þeim sem setja sér stíf markmið séu kannski um 5% sem raunverulega ná þeim. 

„Við verðum að hlusta á líkama okkar og spyrja spurninga eins og hvernig okkur líður þegar við borðum. Sumir gætu enn þá verið að þyngjast þrátt fyrir fögur fyrirheit um síðustu áramót. Þá gæti verið gott að spyrja hvort það gæti tengst einhverju í sálinni eða mögulega hvort líkaminn sé ekki í réttum efnaskiptum.“

Elísabet nefnir einnig að ef hún ætli að gúffa í sig hálfu kílói af grænmeti á dag þá er mjög ólíklegt að bakteríuflóran muni ráða við það. „Hver og einn þarf að hlusta hvernig flóran er, hvernig líkaminn bregst við tiltekinni fæðu. Hver og einn þarf að ákveða sinn lífsstíl.“

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist