Fagnar opnari umræðu um kynlíf og kynhneigð

Kristín Þórsdóttir, verðandi kynlífsmarkþjálfari.
Kristín Þórsdóttir, verðandi kynlífsmarkþjálfari. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Ekkert líf er án kynlífs,“ segja þáttastjórnendur morgunþáttarins Ísland vaknar á K100. Þau Ásgeir Páll, Jón Axel og Kristín Sif hafa að undanförnu fjallað um fjölkæra einstaklinga, þá sem hneigjast til BDSM eða tileinkað sér „swinger“ lífsstílinn svokallaða.

Kristín Þórsdóttir, verðandi kynlífsmarkþjálfi, fagnar því að umræða um fjölbreytt form kynhneigðar og kynlífs sé að aukast. Með aukinni fræðslu og umræðu er hægt að útrýma fordómum sem spretta oftast upp úr fáfræði.

„Það er frábært að verið sé að opna umræðu um þetta,“ segir Kristín. „Mannskepnan er búin að stunda alls konar form kynlífs í margar þúsundir ára. Á erótíska safninu í Kaupmannahöfn eru myndir af fólki í orgíum frá 17 hundruð og eitthvað. Það þarf ekki að vera sammála um ákveðið form kynlífs eða kynhneigð en það er algjörlega út í hött að rakka einhvern niður sem hefur einhverjar tilteknar hneigðir. Öll umræða er góð en þegar verið er að drulla yfir fólk þá þarf að skoða hvað býr þar að baki.“

Í umfjöllun morgunþáttarins var lesið upp bréf frá pari sem stundar makaskipti eða „swing“. Parið óskaði nafnleyndar vegna mikilla fordóma sem væru hér á landi.

„Með opnari umræðu, eins og við sáum til dæmis með samkynhneigð og #freethenipple átakinu, trúi ég því að fordómar munu minnka,“ segir Kristín meðal annars í viðtalinu sem sjá má og heyra í spilaranum hér fyrir neðan.


mbl.is