Hitamet í Noregi

Åndalsnes að sumarlagi en myndin gæti alveg eins verið tekin …
Åndalsnes að sumarlagi en myndin gæti alveg eins verið tekin í dag. Mynd/Wikipedia.org/Kjetil Groven

Á meðan kalt heimskautaloft flæðir yfir Ísland í dag er 19 stiga hiti á nokkrum stöðum í Noregi. Í bænum Åndalsnes, sem er mitt á milli bæjanna Þrándheimar og Björgvinjar, er rjómablíða. Hitamælar í bænum Sunndalsøra, sem er þar skammt frá, sýna 19 stiga hita í dag. Ekki hefur verið hlýrra þar um slóðir í janúar frá árinu 1989.

Norski fréttamiðillinn VG hefur eftir Yvonne Wold, bæjarfulltrúa í Åndalsnes, að veður þar sé algjörlega einstakt fyrir janúar. Það þýði ekkert að fara á skíði því snjór sé að bráðna af fjallstindum þar um kring. 

„Náum við 20 stiga hita í dag,“ spyr norska veðurstofan á Twitter.

Spáð er þó kólnandi veðri víðast hvar í Noregi á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina