Leitar að stórum, mjúkum karlmanni

Hildur Birna Gunnarsdóttir.
Hildur Birna Gunnarsdóttir. Árni Sæberg

Uppistandarinn Hildur Birna Gunnarsdóttir er búin að vera einhleyp í 20 ár. „Ég er búin að vera að leita svolítið að maka en hef ekki ennþá fundið neinn. Ég skil ekkert í þessu, bráðhuggulega konan sem ég er,“ sagði Hildur Birna í hressu spjalli við þáttastjórnendur morgunþáttarins Ísland vaknar á K100 í morgun.  

„Ég er búin að sækja öll námskeið sem hægt er að sækja og er nú að spá í að gerast vegan af því ég hef heyrt að það gerist oft margt hjá einhleypum í rútuferðum austur fyrir fjall í vegan ferðum,“ segir Hildur. Hún skellti sér í meðferð á Vog á dögunum, þótt ekkert væri að henni nema karlmannsleysi að hennar sögn. „Á Vogi eru oft karlmenn sem eru á milli sambanda en það gekk ekki neitt hjá mér þar.“

Hildur Birna er með ákveðnar kröfur þegar kemur að draumaprinsinum. „Hann má ekki fara frá mér. Það er frumskilyrði. Mér finnst frekar leiðinlegt þegar þeir láta sig hverfa. Ég er að að leita að stórum, mjúkum karlmanni sem er heiðarlegur og góður og stendur í lappirnar,“ segir Hildur og tekur skýrt fram að hæð sé mjög mikilvæg.  

Má ekki vera lítill

„Draumaprinsinn má ekki vera lítill karl. Það er vandamál með svona hávaxnar konur eins og mig að eiga lítinn karl því hann verður að vera góður að spúna. Litlir karlar eru svo óþægilegir í því. Þetta er mjög vandmeðfarið,“ sagði Hildur Birna í spjallinu þar sem einnig var komið inn á Tinder menninguna og bingó í Keiluhöllunni, svo nokkuð sé nefnt.

Viðtalið í heild má sjá og heyra í spilaranum hér fyrir neðan.


mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist