Hendir kannski í eitt víkingaklapp

Hjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir.
Hjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir. K100

Hjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir eru að feta nýjar slóðir en þau eru að setja á markað húðvörur undir merkinu A&K. Framleiðsla er komin á fullt hjá Pharma Arctica á Grenivík og sala hefst um helgina.

Kristbjörg hefur lengi haft mikinn áhuga á húðvörum en Aron viðurkennir fúslega að hann hafi ekkert vit á þessu. Hann finni þó mikinn mun eftir að hafa orðið að tilraunadýri í framleiðsluferlinu.

Þau ætla að prófa vörurnar fyrst á Íslandi en ef vel gengur stefna þau á alþjóðamarkað og þá mögulega með því að nýta frægð Arons. „Þá hendir maður kannski í eitt víkingaklapp,“ segir Aron í viðtali við þá Loga og Sigga í Síðdegisþættinum á K100.

Þau hjónin búa í Katar þar sem Aron leikur með Al Arabi, undir stjórn Heimis Hallgrímssonar. Hann meiddist og getur því tekið sér smá frí í desember en gerir ráð fyrir að byrja að æfa aftur með liðinu í byrjun janúar.

Það er töluverður munur á aðstæðum og veðri á Íslandi og Katar enda fer hitinn yfir 40 gráður á sumrin og þannig var það einmitt þegar þau komu fyrst og Aron segir að fyrstu æfingarnar hafi verið mjög erfiðar. Því sé ágætt að njóta sín í nokkra daga í íslensku vetrarveðri.

Viðtalið við þau Aron og Kristbjörgu má sjá og heyra í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist