„Vel giftir karlar verða utan við sig“

Gauti Einarsson.
Gauti Einarsson. Mynd: Vikudagur

Pistill sem Gauti Einarsson ritaði á vikudagur.is á Akureyri hefur farið víða í netheimum. Þar rekur hann kenningu sína um vel gifta karla. Kenningin á vel við hann, að eigin sögn.

Hún gengur út á að karlar sem eiga framtakssamar og skýrar konur draga sig smám saman til hlés í allri framtakssemi. Þeir verða utan við sig, hætta að muna afmælisdaga og gleyma að gera hversdagslega hluti. Konan græjar allt hvort sem er.

„Skömmu eftir að við hjónin vorum búin að skipta um bíl var ég að keyra Þingvallarstrætið þegar ég mætti konunni minni undir stýri. Ég sá hana reyndar ekki glöggt en þekkti nýja bílinn okkar svo ég heilsaði henni glaðlega. Áttaði mig svo á því að ég var sjálfur að keyra bílinn nýja og konan mín sat við hliðina á mér,“ segir Gauti, í bráðfyndnum pistli.

Í viðtali við þá Loga og Sigga í Síðdegisþættinum á K100 ítrekaði Gauti að hann sé ekki greindur með athyglisbrest og á auðvelt með einbeitingu.

„Það er helst að það séu verk sem krefjast þess að maður þurfi að rífa sig úr að ofan eða taka á honum stóra sínum. Þá kannski stígur maður upp en annars er maður bara eins og ljónakóngur, liggur bara undir trénu og horfir yfir dýrðina,“ sagði Gauti í bráðhressu viðtali við þá Loga og Sigga sem hlusta má á í spilaranum hér fyrir neðan.

Pistilinn má lesa í heild sinni á vef Vikudags.

mbl.is