Heillaðir af Reykjanesinu

Mikið sjónarspil blasti við Loga og Sigga á ferð þeirra …
Mikið sjónarspil blasti við Loga og Sigga á ferð þeirra um Reykjanesið á dögunum. Hér eru þeir á suðurstrandarveginum á leið til Grindavíkur

Þeir Siggi Gunnars og Logi Bergmann voru í beinni útsendingu í Reykjanesbæ í sjálfu Rokksafninu á dögunum.

Krísuvíkurleiðin varð fyrir valinu hjá þeim Sigga og Loga en fyrsta stopp á þessari fallegu leið var við Kleifarvatn þar sem náttúrufegurðin og kyrrðin er óviðjafnanleg. Því næst héldu þeir á hverasvæðið í Seltúni, stöldruðu aðeins við í Grindavík og virtu fyrir sér bæði mat og menningu og leyfðu fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum að fylgjast með. „Ég er alinn upp fyrir norðan þannig að ég fór bara Reykjaneshringinn í fyrsta skipti fyrir nokkrum árum og varð alveg heillaður. Síðan þá hef ég farið þangað í ótal skipti, bæði með erlenda vini mína sem eru að heimsækja mig og líka bara í helgarrúnt með vinum eða fjölskyldu. Svo stelst ég stundum til þess að fara einn að Kleifarvatni og upplifa þögnina og fegurðina sem þar er. Það er frábært til þess að núllastilla sig,“ segir Siggi um svæðið. Næsta stopp var við Reykjanesvita. „Þar horfðum við yfir í Eldey þar sem síðustu tveir geirfuglarnir voru drepnir árið 1844. Sólin var í þann mund að setjast þegar við komum þangað og sjónarspilið mikið.“

Logi var heillaður af fegurðinni við Kleifarvatn.
Logi var heillaður af fegurðinni við Kleifarvatn.

Langar að sjá meira

„Ég var að fara þennan hring í fyrsta skipti síðan ég var krakki þannig að ég var eiginlega að fara þetta í fyrsta skipti því ég mundi ekkert eftir því. Ég er heillaður af þessu svæði, þetta var rosalega skemmtilegur dagur þar sem Siggi teymdi mig milli náttúruperlanna á svæðinu,“ sagði Logi spurður um þessa upplifun. Því næst héldu þeir í átt að Gunnuhver og keyrðu svo áleiðis að brúnni milli heimsálfanna. „Þar sjást flekaskilin milli Norður-Ameríku og Evrópu einstaklega vel og er hægt að fara á milli þeirra og taka af sér mynd. Frábært myndastopp.“ Þeir Siggi og Logi voru sammála um að þetta þyrftu þeir að endurtaka fljótlega enda komust þeir aðeins yfir brotabrot af því sem þá langaði að upplifa.

Fengu frábæra gesti

„Því miður gafst okkur ekki tækifæri til þess að sjá Brimketil í þessari ferð eða koma við í Hvalsneskirkju sem er einstaklega falleg, en á Hvalsnesi bjó Hallgrímur Pétursson á tímabili. Eins eigum við eftir að keyra saman í gegnum Hafnir, Sandgerði og Garðinn,“ segir Siggi. Þessum frábæra bíltúr lokuðu þeir svo með beinni útsendingu úr Hljómahöllinni í Reykjanesbæ þar sem Rokksafnið magnaða er og öflug menningarstarfsemi. Þar tóku þeir á móti fjölda góðra gesta og kynntu sér töfra Reykjanessins. Á meðal þeirra sem kíktu í spjall og sprell voru þeir Elli í Taco bless-matarvagninum sem selur taco eins og suðrænn vindurinn. „Það er náttúrlega geggjað að vera með eina matarvagninn í Keflavík sem selur taco og það við hliðina á blakvelli með hvítum sandi og við erum í eyju í Norður-Atlantshafi þar sem sumarið kemur aðeins annað hvert ár,“ sagði Elli léttur um bransann.

Siggi á brúnni milli tveggja heimsálfa. Þar verður maður að …
Siggi á brúnni milli tveggja heimsálfa. Þar verður maður að ná mynd!

Mikil tónlistarsaga á svæðinu

Ungi tónlistarsnillingurinn Guðjón Steinn sem getur spilað nánast á hvaða hljóðfæri sem er kom og heillaði hlustendur upp úr skónum með saxófóninum sínum og skemmtilegum fróðleik um tónlistarsögu svæðisins. Kristinn Soð sem stýrir mögnuðum ferða- og matreiðsluþáttum á RÚV um Reykjanesið deildi hinum ýmsu gullmolum með strákunum og að lokum kíkti Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra, í kaffi og spjall og um verkefni sín og ást sína á „Sunny Kef“ eins og Keflavíkin á það til að vera kölluð.

Hlusta má á hljóðbrot úr þessum stórskemmtilega þætti hér að neðan.

Kristinn og þættirnir Soð:

Ragnheiður Elín sem elskar Sunny-Kef:

Tónlistarsnillingurinn Guðjón Steinn

mbl.is