Harður jólapakki frá Sennheiser

Árni Matthíasson með Sennheiser Momentum 3 græjuna.
Árni Matthíasson með Sennheiser Momentum 3 græjuna. Mynd: K100/Síðdegisþátturinn

Logi Bergmann og Siggi Gunnars hafa í Síðdegisþættinum á K100 að undanförnu fjallað um hljóðdempandi heyrnartól. Árni Matthíason, sem er manna fróðastur um nýjustu græjur, var fenginn til að meta það nýjasta á markaðnum sem eru Sennheiser Momentum 3, nýjustu heyrnartólin í Momentum-línunni svokölluðu sem komu á markað í haust.

Árni segir að Sennheiser sé þekkt fyrir framúrskarandi heyrnartól, kannski ekki alltaf með flottustu hönnunina eða nútímalegasta útlitið, en tæknin sé alltaf skotheld og hljómurinn frábær. Þau eru svolítið þung og verkleg, að sögn Árna, um 300 grömm, en fara vel á höfði og mjög traustbyggð. „Þau koma í nokkuð óvenjulegri tautösku, sem margir hefðu kannski viljað hafa stífari en á móti er minna plast,“ segir Árni.

Það er alvöru leður í skálapúðunum. Á þeim er USB-C tengi, og hleðslusnúra og hljóðsnúra fylgja. 

Heyrnartólin styðja Bluetooth 5, sem þýðir minni straumeyðsla, þau eru fljótari að tengjast og ná í traustara samband. Þau veita frábæra hljóðdempun, ein sú besta sem Árni hefur heyrt, og hljómurinn framúrskarandi. „Það er mjög gott hljóð í miðju og hátíðni. Þau duga vel í að skerma út skvaldur. Það er auðvitað hljóðnemi í græjunni og fínt að tala í símann með þau á sér,“ segir Árni.

„Það er enginn hnappur til að kveikja og slökva á heyrnartólunum. Þegar þau eru lögð saman slökkva þau einfaldlega á sér. Hægt er að sækja app til að fínstilla hljóminn og líka til að fíntstilla hljóðdempunina. Þá er hægt að finna heyrnartækin með appinu, sem getur komið sér vel. Rafhlaðan er sögð duga í allt að þrettán tíma. Ég náði ekki að sannreyna það, en endingin var mjög góð. Ef hljóðdempun er ekki í botni endast þau lengur.“

Sennheiser Momentum 3 kosta 58.900 í Pfaff. „Maður borgar fyrir það sem maður fær,“ segir Árni að lokum.


mbl.is