Talast ekki við

Rod Stewart og Elton John þegar allt lék í lyndi.
Rod Stewart og Elton John þegar allt lék í lyndi. AFP

Kastast hefur í kekki á milli dægurlagasöngvaranna Rod Stewart og Elton John, ef marka má yfirlýsingar þess fyrnefnda að undanförnu.

Skoski söngvarinn segist ekki lengur tala við gamla vin sinn, Elton John, því þeim lenti heiftarlega saman. Nú sé Elton í fýlu.

Ástæðan, að sögn Rod, var að hann sagði að tónleikaferð Elton, Farewell Yellow Brick Road, væri eitt risastórt peningaplokk. Þeir væru auglýstir sem „lokatónleikar“ Elton sem væri bara bull til að draga sem flesta að.   

Rifrildið byrjaði í fyrra þegar Rod sagði við spjallþáttastjórann Andy Cohen að tónleikaferð Elton væri bara til að selja sem flesta miða. „Ég sendi henni [Elton] tölvupóst. Þar sagði ég: Ha, aftur lokatónleikar gæskan? Ég fékk ekkert svar.“ 

Glöggir aðdáendur söngvaranna telja sig sjá maðk í þessari mysu því þeir kumpánar eru þekktir fyrir að stríða hvor öðrum opinberlega með þessum hætti. Vinátta þeirra nær lengst aftur til miðbiks síðustu aldar, allt frá því Elton John byrjaði að koma fram á knæpum með blúshljómsveit. Góðlátleg skot þeirra á milli hafa gengið í gegnum tíðina og fjölmiðlar spilað með. Rod sé einfaldlega að þessu til að Elton fái aukna fjölmiðlaathygli fyrir nýjustu bók sína og tónleikaferð. 

mbl.is