„Fíklar ekki hrifnir af spice“

AFP

„Áhrifin af efninu eru gleði, ánægja, mikil slökun og breytt skynjun. En svo eru aukaverkanirnar aukinn hjartsláttur, hár blóðþrýstingur og aukið blóðflæði til hjartans sem leiðir oft til brjóstverkja, ógleði, kvíðakasta og árásargirni.“ Þetta segir Leifur Gauti rannsóknarlögreglumaður í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 en þáttastjórnendur hafa að undanförnu verið að fjalla um fíkniefnið spice sem hefur verið að ryðja sér hér til rúms. Leifur Gauti rannsóknarlögreglumaður telur efnið stórvarasamt en það hefur meðal annars fundist í fangelsum landsins.

„Þegar komið er út í langvarandi notkun á efninu fylgja því hausverkir, óeðlilega mikill sviti, vöðvaskjálfi, óstjórnleg löngun í efnið, geðveiki og ofskynjanir,“ segir Leifur Gauti.

Efast um að efnið nái fótfestu hér á landi

Eyþór Jónsson, læknir á Vogi, segir að kollegar hans hjá SÁÁ verði ekki mikið varir við efnið á meðferðarstofnuninni. Hann telur neyslu þess vera á einhvers konar fiktstigi hér á landi. Hann segir að efnið taki stöðugum breytingum og fíkniefnasalar viti ekki einu sinni hvort þeir eru með löglegt eða ólöglegt efni í höndunum. Því sé erfitt að ná utan um neysluna og bregðast við henni. Útbreiðslan á efninu spice erlendis hafi fyrst og fremst verið í fangelsum.  

„Ég er ekki viss um að efnið henti íslenskum fíkniefnamarkaði,“ segir Eyþór sem á regluleg samtöl við fíkla. „Þeir sem ég hef talað við, sem hafa verið að fikta við þetta, eru ekki hrifnir af áhrifunum.“ 

Viðtölin við þá Leif Gauta og Eyþór Jónsson má sjá í spilurunum hér að neðan.mbl.is