Fyrsti flutningur ódauðlegs jólalags

Mariah Carey deilir með fylgjendum sínum upptöku af því þegar …
Mariah Carey deilir með fylgjendum sínum upptöku af því þegar hún söng í fyrsta skipti opinberlega lagið All I Want For Christmas Is You. AFP

Söngdívan Mariah Carey deildi óvæntum glaðningi með aðdáendum sínum í vikunni. Nú eru 25 ár liðin frá því hún gaf út plötuna Merry Christmas. Af því tilefni deildi hún áður óbirtri upptöku af því þegar hún söng lagið All I Want For Christmas Is You í fyrsta skipti opinberlega. 

Lagið var flutt, í fyrsta skipti, á góðgerðartónleikum í dómkirkju heilags Jóhannesar í New York 8. desember 1994. Carey fer þar áreynslulaust upp og niður tónstigann með öflugum stuðningi þriggja bakraddasöngkvenna og undirleikara.

Fáir sem á hlýddu gerðu sér grein fyrir að lagið myndi festa sig í sessi sem ómissandi hluti jólaundirbúnings aðdáenda Mariah Carey víða um heim. Hörðustu rokkarar eru jafnvel sagðir dilla sér með í sakbitinni sælu.

Lagið All I Want For Christmas Is You er aftur farið að minna á sig á vinsældarlistum og settist í 39. sæti á Billboard listanum vestanhafs í vikunni. Vinsældir þess munu líklega ná hæstu hæðum á ný á næstu dögum og vikum en fyrir jólin í fyrra fór það hæst í 3. sæti listans.


  

mbl.is