Aurora í Frozen 2

Norska söngkonan Aurora.
Norska söngkonan Aurora. Mynd: instagram/auroramusic/

Teiknimyndin Frozen 2 er á leið í bíó um helgina og má búast við að ungir aðdáendur fyrri myndarinnar muni ekki láta hana fram hjá sér fara.

Lög í myndinni eru flutt af stjörnum eins og Idina Menzel, Kristin Bell og söngkonu sem hlustendur K100 kannast örugglega vel við. Hún kallar sig Aurora, kemur frá Noregi og er aðeins 23 ára. Í frétt Mashable er hún sögð óvenjuleg söngkona til að koma fram í Disney-mynd þar sem tónlist hennar er oft svolítið drungaleg. Þó er hún ansi grípandi og heillandi.

Tónlist Aurora er sögð líkjast Sia og Billie Eilish, svo það er ekki leiðum að líkjast. Fyrsta plata hennar, All My Demons Greeting Me As A Friend fór beint í efsta sæti vinsældarlista í Noregi.

Árið 2016 kom hún fyrst fyrir sjónir sjónvarpsáhorfenda hjá Jimmy Fallon með eftirminnilegum hætti.

Í viðtali við tímaritið Culture Trip fyrr á árinu sagðist Aurora semja tónlist utan um pælingar sínar um lífið og tilveruna. „Ég sem um það sem mér er efst í huga á hverjum tíma. Það sem ég er að pæla í eða get ekki skilið. Tilfinningar sem ég get ekki útskýrt eða sorgina sem ég get ekki flúið. Ég nota tónlistina til að tjá það frá hjartanu.“ 

Fyrr á þessu ári kom Aurora fram á Kex Hostel í Reykjavík hjá bandarísku útvarpsstöðinni KEXP. Tónleikana má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist