Pink í pásu

Bandaríska söngkonan Pink með manni sínum Carey Hart og börnum …
Bandaríska söngkonan Pink með manni sínum Carey Hart og börnum þeirra, Jameson Moon Hart og Willow Sage Hart. AFP

Sársauki er óumflýjanlegur. Það er sárt að vera manneskja. Um þetta yrkir tónlistarkonan Pink í titillagi plötunnar It Hurts 2B Human. Nú hefur Pink lýst því yfir að þetta sé orðið gott í bili. Hún ætlar að taka sér hlé um ótilgreindan tíma frá tónlistarsköpun og tónleikum til að gefa sér meiri tíma fyrir fjölskylduna.

Pink kom þó nýverið fram á uppskeruhátíð sveitaballaðabransans í Bandaríkjunum þar sem hún flutti lagið Love Me Anyway ásamt söngvaranum Chris Stapleton. Flutningur þeirra sló í gegn og lagið fór beint í efsta sæti iTunes listans í Bandaríkjunum.

Áður en hún steig á svið ræddi hún við Entertainment Tonight. Þar sagði hún að næsta ár yrði tileinkað börnum sínum, Willow og Jameson, sem eru á skólaaldri. Maður hennar, Carey Hart, fengi líka sinn tíma en hann hefur stutt hana dyggilega lengi vel á tónleikaferðalögum út um allan heim. Nú væri hans tími kominn til að blómstra.

Frá því í mars 2018 þar til í þessum mánuði kom Pink fram á 159 tónleikum. Tónleikaröð hennar, sem kallaðist Beautiful Trauma er 10. söluhæsta tónleikaröð allra tíma. 3 milljónir miða seldust fyrir 400 milljónir Bandaríkjadala.

Platan Hurts 2B Human fór í efsta sæti Billboard listans og varð þar með þriðja plata Pink í röð sem gerir það. Frá því hún kom fyrst fram á sjónvarsviðið um síðustu aldamót hefur hún unnið þrjár Grammy viðurkenningar og selt 57 milljón plötur.

Þetta gat hún þó lífið sé sársauki.

mbl.is