Er Robbie að stela jólunum?

Robbie Williams er í jólastuði.
Robbie Williams er í jólastuði. AFP: Jean Christophe Magnenet.

Von er á jólaplötu Robbie Williams í næstu viku en þegar hafa fyrstu lög af henni fengið að hljóma á öldum ljósvakans. Platan heitir „The Christmas Present“ þar sem söngvarinn knái tekur ábreiður af vinsælum lögum í bland við frumsamin splunkuný jólalög.

Fjögur lög hafa litið dagsins ljós. Fyrst kom út lag með ábreiðu hans og Jamie Cullum af laginu „Merry Xmas Everybody“ sem hljómsveitin Slade gerði frægt. Lagið „Christmas (Baby Please Come Home)“ flytur Robbie með kanadíska rokkaranum Bryan Adams og svo gaf Robbie út nýtt lag sem heitir „Lets Not Go Shopping“.

Það er hins vegar fjórða lagið, sem Robbie hefur sent frá sér af þessari nýju jólaplötu, sem tónlistargagnrýnendur segja að eigi eftir að lifa lengi. Lagið heitir „Rudolph“ og er sagt hafa allt sem til þarf fyrir gott jólapopp með tilheyrandi jólabjöllum og jólakór. Lagið er einhvern veginn þannig að það hljómar kunnuglega. Samt er það splunkunýtt. 

mbl.is