Sokkar Michael Jackson metnir á 125 milljónir

Verðmætir eru sokkar Michael Jackson.
Verðmætir eru sokkar Michael Jackson. Mynd: Gotta Have Rock And Roll.

Michael Jackson safnaðist til feðra sinna fyrir um tíu árum. Afar neikvæð mynd var dregin af honum í heimildarmyndinni Leaving Neverland. Samt sem áður nýtur hann enn þá mikilla vinsælda. Svo mikilla reyndar að sokkar hans, sem meira að segja eru skítugir, eru taldir ákaflega verðmætir af uppboðsfyrirtæki sem býður þá til sölu. Matsvirðið er minnst ein milljón Bandaríkjadala, 125 milljónir íslenskra króna. 

Þetta eru þó engir venjulegir sokkar því söngvarinn klæddist þeim árið 1983 í sjónvarpsþættinum Motown 25: Yesterday, Today, Forever en það var einmitt þar sem Jackson sýndi fyrst „Moonwalk“-dansspor sitt fræga.

Frank DiLeo, sem eitt sinn var umboðsmaður Jackson, safnaði alls konar skrítnum hlutum úr poppsögunni sem nú er hægt að bjóða í. Aðrir munir sem tengjast Jackson, og hægt er að festa kaup á, eru jakkaföt hans úr „Victory“-tónleikaferðinni og Chicago Bulls-íþróttatreyja sem hann áritaði. Hvort tveggja er metið á um 20 þúsund dali.

Skyrta sem rapparinn sálugi Tupac Shakur klæddist er einnig til sölu fyrir litla 10 þúsund dali. Það má einnig bjóða í brjóstahaldara sem poppdívan Rihanna klæddist á MTV-myndbandahátíðinni árið 2016. Þeir eru metnir á 8 þúsund dali.

Handskrifað fyrsta uppkast Paul McCartney að textanum við bítlalagið „Maxwell´s Silver Hammer“ er einnig auglýst til sölu en fyrir það fengust 192 þúsund dalir þegar það var síðast boðið upp hjá Christies árið 2006.

Síðast en ekki síst má bjóða í lokk úr hári Kurt Cobain, söngvara Nirvana, sem lést árið 1994. Stúlka nokkur, hvers nafns er ekki getið, náði einhvern veginn að fá hluta af hári átrúnaðargoðs síns er það var á tónleikaferði. Hárið fór í hjartlaga box sem Cobain áritaði. Boxið með hárinu er verðlagt á 12 þúsund dali.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um uppboðið á síðunni Gotta Have Rock and Roll. 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist