„Hættu að nota mýkingarefni, elskan mín”

Margrét Dórothea Sigfúsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans
Margrét Dórothea Sigfúsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans mbl.is/Árni Sæberg

„Mýkingarefni safnast fyrir innan í þvottavélum þar sem það myndar einskonar sílikonhúð. Þar geta sveppir safnast og vond lykt myndast. Mýkingarefni er mikill ofnæmisvaldur og sérstaklega fyrir börn.”

Þetta segir Margrét Sigfúsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans, í viðtali við Sigga Gunnars og Loga Bergmann á K100. 

Siggi var í Kaupmannahöfn um helgina og kom þar við á börum til að smakka hinn annálaða danska jólabjór. Ennþá má reykja inni á litlum börum í Köben og þegar heim var komið lyktuðu öll föt Sigga af reyk. Reykingalykt var ennþá af fötunum þó hann hafði þvegið þau í þvottavél og þurrkað.

Margrét vissi um leið hvert vandamálið var. Hún er algerlega á móti notkun mýkingarefna sem hjálpa alls ekki við að losna við lykt. Eins á ekki að nota þvottaefnis „koddana“ heldur bara gamla góða þvottaduftið, að sögn Margrétar. Ef lyktin er mikil skal nota Rodalon eða edik út í þvottavélina. Þá ætti öll lykt að vera á bak og burt.

„Hættu að vera mýkingarefnaperri, elskan mín,“ sagði Margrét við Sigga í gagnlegu og skemmtilegu viðtali sem heyra má í spilaranum hér fyrir neðan.


 

mbl.is