Facebook ræsir óvart myndavél notenda

Hugbúnaðargalli í útgáfu iOS 13.2.2 í iPhone-símum ræsir óvart myndavélina …
Hugbúnaðargalli í útgáfu iOS 13.2.2 í iPhone-símum ræsir óvart myndavélina um leið og Facebook-forritið er opnað. Einn stjórnenda fyrirtækisins viðurkennir þetta og segir þetta lagað í hvelli. AFP

Facebook er líklega ekki að nýta sér persónuupplýsingar notenda sinna í meira mæli nú en venjulega. Villa í síðustu hugbúnaðaruppfærslu þess fyrir iPhone-síma er þó nógu óþægileg til að valda usla á samfélagsmiðlum.

Um leið og Facebook-forritið er opnað í iPhone ræsist myndavélin í bakgrunni. Það virðist þá eins og fyrirtækið sé að fylgjast með notendum og taka myndir og myndskeið af þeim. Þetta virðist gerast í útgáfu iOS 13.2.2 en ekki í iOS 12. 

Fjöldi netverja hafa tilkynnt um gallann. Sjá má myndavélina ræsast í bakgrunni forritsins í myndskeiði sem Joshua Maddoxx birtir á Twitter. 

Guy Rose, sem titlaður er varaforstjóri deildar innan Facebook sem kennir sig við heiðarleika, viðurkennir hugbúnaðargallann í færslu á Twitter. Hann segir að Facebook hafi ekki verið að hlaða niður myndum eða myndskeiðum af notendum sínum á meðan þeir voru að nota forritið. Hann bætti því síðar við, í annarri færslu, að fyrirtækið hefði strax brugðist við og hefði hlaðið inn lagfæringu á þessu. 

Eftir því sem næst verður komist virðist ekki um einbeittan brotavilja hjá Facebook að ræða heldur mannleg mistök.

Þeir sem vilja ekki að að Facebook hafi aðgang að myndavél iPhone-símans geta farið í Settings > Privacy > Camera og tekið merkinguna þar af Facebook.

Ef það dugar ekki til að róa áhyggjur yfir þessu má alltaf skoða að eyða Facebook úr símanum fyrir fullt og allt.  

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist