Billie Eilish býður á tónleika

Bandaríska söngkonan Billie Eilish er gríðarlega vinsæl.
Bandaríska söngkonan Billie Eilish er gríðarlega vinsæl. Mynd: billieeilish/instagram

Loftslagsmál eru bandarísku tónlistarkonunni Billie Eilis hugleikin og nægir að nefna þar síðasta myndband hennar við lagið „All The Good Girls Go To Hell“ þar sem heimur var á heljarþröm.

Hún hvetur aðdáendur sína til umhverfisvitundar. Þeir sem lofa að berjast gegn loftslagsvánni eiga möguleika á að komast frítt á löngu uppselda tónleika hennar. 

Eilish hefur gengið til liðs við Global Citizen samtökin til að aðstoða hana við að ná til þeirra sem vilja raunverulega breyta um lífsstíl, og skella sér á tónleika hennar í leiðinni. Á myndskeiði sem tónlistarkonan birtir á Twitter segist hún vilja koma í veg fyrir að aðdáendur sínir lendi í höndunum á miðabröskurum. Því hafi samstarfið við Global Citizen komið eins og himnasending.

Aðdáendur Billie Eilish geta smellt á þessa heimasíðu til að „fræðast meira um umhverfismál,“ og skráð sig til þátttöku til að tryggja sér miða á tónleika hennar. mbl.is