Adele á svið með Kryddpíum?

Söngkonan Adele er svo mikill aðdáandi Kryddpíanna að hún vill …
Söngkonan Adele er svo mikill aðdáandi Kryddpíanna að hún vill helst ganga í sveitina og koma fram með þeim á tónleikum. Mynd/spicegirls/instagram

Mel C, ein söngkvenna Kryddpíanna segir í viðtali við breska götublaðið The Sun að Kryddpíur geti ekki hugsað sér að stíga á svið með söngkonunni Adele. Ástæðan er sú að Adele er miklu betri söngkona en þær og myndi hreinlega „syngja þær út af sviðinu.“

Þetta sagði Mel C reyndar brosandi svo ætla má að hún hafi verið að grínast.

Victoria Beckham vill einbeita sér frekar að tískubransanum en að túra með stelpunum og syngja gömul lög. Hún hefur því dregið sig í hlé úr sveitinni, í bili að minnsta kosti. Þarna sér Adele sér leik á borði og tækifæri til að láta stærsta æskudraum sinn rætast að verða ein af söngkonum Kryddpía. Í stað þess að bíða róleg við símann eftir að fá boð um slíkt sækir hún það nú stíft að fá að ganga til liðs við sveitina.

Adele sættir sig semsagt ekki lengur við að vera eins og venjulegur áhorfandi uppi í stúku eins og á tónleikum Kryddpía í London fyrr á árinu. Hún vill fá að vera með.

Adele segist hafa orðið ástfangin af 10 ára stelpunni innra með sér á ný þegar hún sá stúlknasveitina syngja á sviði á Wembley í sumar. „Það er ekkert leyndarmál hvað ég elska þær mikið og hversu mikil áhrif þær höfðu á mig og tónlistarferil minn. Loksins hitti ég þær! Ég datt í það með þeim og trúi ekki, í alvöru talað, hversu langt ég er komin.“

Endurkomutónleikar Kryddpía gengu það vel að heyrst hefur að þær verði með reglulega tónleika í Las Vegas á næstunni. Aldrei er að vita nema Kryddpíur bjóði Adele þar upp á svið, ef þær þora.

mbl.is