Kvikmynd um Bee Gees í bígerð

Robin, Barry og Maurice Gibb. Myndin var tekin árið 1997.
Robin, Barry og Maurice Gibb. Myndin var tekin árið 1997. AFP: Kimberly Barth.

Kvikmyndavefurinn Deadline greinir frá því að Graham King, sem framleiddi meðal annars kvikmyndina Bohemian Rhapsody um Freddie Mercury og Queen, hafi gengið til liðs við Paramount Pictures og framleiðslufyrirtæki þess, Sister, til að hefja undirbúning kvikmyndar um hljómsveitina Bee Gees.

Það á eftir að skrifa handrit og ráða í hlutverk en Paramount hefur keypt réttinn til að leika lög Bee Gees í myndinni.

Bræðurnir Barry, Robin og Maurice Gibb komu fyrst fram sem Bee Gees seint á sjötta áratug síðustu aldar, fyrst í Ástralíu en síðar í Bretlandi. Sagan segir að það hafi verið Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna, sem uppgötvaði þá.

Eftir að hafa hætt starfsemi um stundarsakir árið 1970 komu Gibb bræður aftur saman og slógu rækilega í gegn árið 1977 með lögum úr myndinni Saturday Night Fever.

Yngstur þeirra bræðra, Andy Gibb, lést langt fyrir aldur fram, aðeins 30 ára að aldri, árið 1988. Maurice Gibb lést árið 2003 og Robin, tvíburabróðir hans árið 2012. Barry Gibb var aðlaður fyrir framlag sitt til tónlistar árið 2018. 

Kvikmyndin um Bee Gees kemur næst í röð mynda um ævi og störf tónlistarmanna sem komið hafa út að undanförnu. Fyrst kom Bohemian Rhapsody. Þá kom kvikmyndin Rocketman um Elton John en frést hefur að í bígerð séu kvikmyndir um Boy George, Dusty Springfield og Celine Dion. Auk þess er von á kvikmynd um síðustu ár í lífi söng- og leikkonunnar Judy Garland þar sem Renée Zellweger fer með hlutverk leik- og söngkonunnar.

Frétt Deadline.

mbl.is