Samtök fólks með hausverk?

Steingrímur Sævarr Ólafsson er búinn að vera með hausverk í …
Steingrímur Sævarr Ólafsson er búinn að vera með hausverk í 28 ár. Árni Sæberg

Steingrímur Sævarr Ólafsson hefur fengið ógrynni skilaboða eftir að færsla sem hann setti á Facebook fékk mikla athygli. Þar lýsti hann því að hann hefur verið með samfelldan hausverk í 28 ár eftir að hafa lent í bílslysi. Fjölmargir glíma við svipaðan vanda og miðað við viðbrögðin sem hann hefur fengið spyr Steingrímur, í viðtali við þá Loga og Sigga í síðdegisþættinum á K100, hvort ekki sé tilvalið að stofna samtök fólks með hausverk.

„Það virðist ótrúlega algengt að fólk sé að glíma við hausverk í fleiri ár. Það eru allir að leita að lausnum,“ segir Steingrímur sem segist sjálfur hafa prófað ansi margt til að losna við verkinn. Ekki hefur fundist nein skýring í tilfelli hans en líklegast er um að ræða afleiðingu bílslyssins þegar hnykkur kom á hálsinn sem hafði áhrif á bandvef eða taugaenda.

„Ég fann það út að langar bílferðir, flugferðir eða stress mögnuðu upp hausverkinn,“ segir Steingrímur sem er búinn að prófa nudd, sjúkraþjálfun, nálastungur, heilun og áruhreinsun.

Í viðtalinu, sem heyra má í spilaranum hér að neðan lýsir hann einnig „litanuddi“ sem er ein sérstakasta meðferð sem hann hefur prófað.


mbl.is

Bloggað um fréttina