Nýr síðdegisþáttur K100 fer vel af stað

Logi Bergmann og Siggi Gunnars stýra síðdegisþættinum á K100 sem …
Logi Bergmann og Siggi Gunnars stýra síðdegisþættinum á K100 sem fer vel af stað. K100

„Mér finnst frábært að vinna með Sigga Gunnars. Samstarfið gengur vel og við erum léttir á því saman síðdegis,“ segir Logi Bergmann spurður um hvernig nýi þátturinn leggst í hann. Logi er einn reynslumesti fjölmiðlamaður landsins og þekkja flestir til hans ferils. Siggi er sömuleiðis reyndur útvarpsmaður og hefur gríðarlega þekkingu á miðlinum en hann er með meistaragráðu í fjölmiðlafræðum með áherslu á útvarp frá háskólanum í Sunderland í Bretlandi. Það er því óhætt að segja að það sé mikil reynsla á bak við nýja þáttinn.

Skemmtilegri leiðin

„Það er áskorun að takast á við að gera nýjan síðdegisþátt því það er mikil samkeppni í útvarpinu á þessum tíma dags en ég hlakka til að takast á við hana með Loga,“ segir Siggi um samstarf þeirra félaga.

„Áherslan er á að velja skemmtilegri leiðina í lífinu, vera léttir og lifandi,“ segir Logi um efnistökin en það er óhætt að segja að gleðin ráði ríkjum hjá þeim félögum en ófá hlátrasköllin hafa heyrst í fyrstu þáttunum.

„Við spjöllum við áhugavert fólk um skemmtilega hluti og erum ekkert að taka okkur of alvarlega. Lífið er miklu skemmtilegra þannig. Við viljum bjóða upp á valkost við hin síðdegisútvörpin sem eru eilítið þyngri,“ bætir Logi við.

„Við munum auðvitað fylgjast vel með málefnum líðandi stundar og gera því sem er að gerast góð skil auk þess sem við erum með fréttir á heila tímanum,“ segir Siggi.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist