Hátalaralengja í yfirstærð

Árni Matthíasson og Logi Bergmann með Sennheiser Ambeo-hátalaragræjuna.
Árni Matthíasson og Logi Bergmann með Sennheiser Ambeo-hátalaragræjuna. K100

Árni Matthíasson fer yfir nýjustu græjurnar í síðdegisþætti Loga og Sigga á K100. Í vikunni dró hann með sér risastóra Sennheiser Ambeo-hátalaragræju sem er sögð einstök í hljómgæðum.

Sennheiser Ambeo-græjan gefur frá sér hljóð af ýmsum tíðnum, í …
Sennheiser Ambeo-græjan gefur frá sér hljóð af ýmsum tíðnum, í fyrsta sinn sem hún er sett upp, og nemur endurkastið til að ná að fínstilla hljóminn. Mynd: Aðsend

„Til þess að koma upp almennilegum hljómi við sjónvarpið er hægt að vera með heimabíó með mörgum hátölurum sem raðað er yfir, undir og allt um kring,“ segir Árni. „Algengasta lausnin er að hafa hátalaralengju undir sjónvarpinu, svonefnt „Soundbar“, og síðan bassabox ekki langt frá til að skila lágtíðninni. Sennheiser fer aðra leið þar sem allt er innifalið, ef svo má segja.“

Stillir sig miðað við endurkast

Árni segir að Sennheiser Ambeo-hátalarinn styðji Dolby Atmos, DTS:X og MPEG-H og skili 5.1.4 hljómi. „Hljóðnemi fylgir til að hjálpa að stilla græjuna. Þegar hún er sett upp í fyrsta sinn gefur hún frá sér hljóð af ýmsum tíðnum og nemur endurkastið til að ná að fínstilla hljóminn. Hún tekur þó óneitanlega nokkuð pláss. Breiddin er áþekk 55" sjónvarpsskjá, 126,5 sentimetrar og hæðin 12,5 —13,5 sentimetrar, eftir því hvort fætur eru notaðir undir græjuna eða ekki. Dýptin er 17,1 sentimetri. Hún er líka þung, 18,5 kíló.“

Þrettán hátalarar eru í græjunni en það eru 6 svokallaðir „wooferar“, 5 „tweeterar“ og tveir svonefndir „fullrange“ hátalarar sem vísa upp og til hliðar. Ekki er þörf á að hafa sérstakan bassahátalara, „subwoofer“, það næst kappnógur bassi og ríflega það, að sögn Árna.

„Hægt er að stýra græjunni með appi, fínstilla hljóminn og laga hann að rýminu. Magnarinn er 250 watta og hljómurinn eftir því. Hægt að láta allt leika á reiðiskjálfi en græjan er aðallega hönnuð fyrir sjónvarp og bíómyndir en tónlist hljómar líka einkar vel í henni.”

Sennheiser Ambeo kostar slétt 380 þúsund í Pfaff.

mbl.is