„Fíkn og skömm eru systur“

Anna Lóa Ólafsdóttir í Hamingjuhorninu segir að skömm hafi ótrúlega …
Anna Lóa Ólafsdóttir í Hamingjuhorninu segir að skömm hafi ótrúlega mikil áhrif innra með okkur. Sektarkennd sé allt annað. Mynd: Aðsend.

„Skömmin býr innra með okkur sem oft er erfitt að átta sig á og tjá sig um. Þegar maður er þjakaður af skömm þá vill maður helst hafa leynd yfir henni og ekki segja neinum frá. Hún hefur ótrúlega mikil áhrif innra með okkur. Sektarkennd er eitthvað allt annað. Hún kemur vegna einhvers sem þú gerðir en ætlar að reyna að læra af reynslunni að gera það ekki aftur.“

Þetta segir Anna Lóa Ólafsdóttir í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 en færsla hennar í Hamingjuhorninu um skömm og sektarkennd hefur vakið mikla athygli.   

Æ og skammastu þín svo

Hún segir að samferðarfólk okkar getur oft kveikt í skömm, án þess að gera sér grein fyrir því. Það getur til dæmis átt við þegar samstarfsmaður fær sér köku á disk í mötuneytinu og annar lætur athugasemd fylgja um mataræði þess fyrra. Þá er verið að „skamm-kveikja“ sem er íslensk þýðing á „shame-triggering“, að sögn Önnu. Þetta geti líka átt við þegar nemandi er skammaður fyrir framan samnemendur af kennara, svo dæmi sé nefnt.

Þáttastjórnendur könnuðust vel við þessa hegðun hjá hvort öðru og var mikið hlegið í hljóðveri K100 að vanda.

Anna kom inn á að fólk getur losað sig við skömm með því að tjá sig um hana. „Fíkn og skömm eru systur. Þegar við upplifum mikla skömm þá er meiri hætta á að við förum að deyfa eða ánetjumst einhverju sem á að deyfa skömmina.“  

Áhugavert viðtal við Önnu Lóu má sjá og heyra í spilaranum hér að neðan.

Eiríkur Fjalar söng ágætlega um þetta viðfangsefni um árið og kom að kjarna málsins.

mbl.is